Ein leiðin til að minnka kolefnisfótspor búreksturs er að rækta skóg og nýta viðinn sem orkugjafa, f…
Ein leiðin til að minnka kolefnisfótspor búreksturs er að rækta skóg og nýta viðinn sem orkugjafa, framleiða eigin undirburð undir skepnur, girðingarstaura og fleira. Ýmis vistkerfisþjónusta skógarins eykur líka afurðir búanna, eflir jarðvegsþrótt, veitir skjól o.s.frv. Myndin er tekin í Hvammi í Eyjafjarðarsveit þar sem er fléttað saman kúabúskap og skógrækt með mjög góðum árangri. Mynd: Pétur Halldórsson

Orkuarðsemi kúabúa og jarðvegsmyndun í Surtsey

Rannsókn sem fjallað er um í nýrri grein í vefritinu Icelandic Agricultural Sciences bendir til að orkuarðsemi lífrænna kúabúa á Íslandi sé meiri en hefðbundinna kúabúa. Í annarri nýrri grein í sama riti er fjallað um samfélög þráðorma í Surtsey hálfri öld eftir að eyjan myndaðist. Þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og rannsóknin er mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi á Íslandi. Slíkar rannsóknir eru fágætar hérlendis en tveir vísindamenn á sviði skógvísinda eru meðal höfunda greinarinnar.

Meiri orkuarðsemi á lífrænum kúabúum

Fyrri greinin nefnist Samanburður á orkuarðsemi (EROI) lífrænna og hefðbundinna íslenskra kúabúa (A Comparative Analysis of the Energy Return on Investment of Organic and Conventional Icelandic Dairy Farms). Höfundar hennar eru Reynir Smári Atlason, Karl Martin Kjareheim, Brynhildur Davíðsdóttir og Kristín Vala Ragnarsdóttir. Markmið þeirra var að rannsaka hvaða landbúnaðaraðferð skilaði mestri orku til samfélagsins á móti  þeirri orku sem notuð er við búreksturinn. Þetta er í fyrsta sinn sem orkunotkun íslenskra búa er borin saman við þá orku sem þau gefa af sér. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðu um orkunýtingu í landbúnaði og hvernig við nýtum óendurnýjanlega orku og hráefni í landbúnaði. Jafnframt gerir þessi vitneskja okkur kleift að hefja samanburð við önnur lönd á þessu sviði.

Nýmæli var einnig við þessa rannsókn að í henni var orkuarðsemi hefðbundinna og lífrænna búa borin saman. Niðurstöður eru ekki ótvíræðar þar sem lífærnu búin voru of fá til að draga endanlegar ályktanir en rannsóknin gefur til kynna að lífræn kúabú geti gefið betri orkuarðsemi en hefðbundin býli. Uppskera á hvern hektara sé minni en á móti komi að tilbúinn áburður er ekki notaður. Framleiðsla hans, flutningur og dreifing krefst mikillar orku og sú orka er oftar en ekki fengin með óendurnýjanlegu jarðefnaeldsneyti.

Jarðvegsmyndun í Surtsey

Hin greinin, Þráðormasamfélög Surtseyjar 50 árum eftir myndun hennar (Soil nematode communities on Surtsey, 50 years after the formation of the volcanic island), er eftir þau Krassimira Ilieva-Makulec, Brynhildi Bjarnadóttur og Bjarna Diðrik Sigurðsson. Þar er fjallað um þær breytingar sem hafa orðið á samfélögum þráðorma í jarðvegi á Surtsey frá því að hún myndaðist 1963.


Þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og við jarðvegsmyndun. Höfundar bera saman næringarsnauð svæði og svæði sem voru næringarrík vegna þétts mávavarps.

Alls fundust 25 ættkvíslir af þráðormum og þar af 14 sem ekki höfðu fundist þar áður. Höfundar fundu samband milli nokkurra jarðvegsþátta og gróðurs en jafnframt að framvinda þráðorma hefði annað ferli en gróðurframvindan.

Rannsóknir á jarðvegslífi eru afar fágætar á Íslandi og því má líta á þessa rannsókn sem nýjung á því sviði og mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi. Jafnframt er þessi rannsókn mikilvægt innlegg í framvindu á jarðvegslífi á nýrri eyju, á áður ógrónu landi.

Texti: Pétur Halldórsson