Fleira en trjábolirnir getur verið nýtilegt af felldum trjám í skógi. Spurningin er hversu langt má …
Fleira en trjábolirnir getur verið nýtilegt af felldum trjám í skógi. Spurningin er hversu langt má ganga í gjörnýtingu viðarins. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Langtímarannsókna er þörf

Út er komin í vísindaritinu Forest Ecology and Management ný yfirlitsgrein þar sem fjallað er um áhrif þess á vistkerfi skóga þegar ekki eingöngu trjábolurinn er tekinn út úr skóginum við skógarhögg heldur allur standandi lífmassi trésins. Í greininni er rætt um hvernig þetta hefur áhrif á jarðvegskolefni og vaxtarhraða skóga, til dæmis eftir grisjun á miðri vaxtarlotu, en jafnframt hugað að því hver áhrifin verða á næstu kynslóð trjáa, nýgræðinginn sem vex upp eftir lokahögg. Greinarhöfundar segja brýnt að afla betri þekkingar á þessu með langtímarannsóknum.

Aðalhöfundar greinarinnar eru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Nicholas Clarke, vísindamaður við Skog og Landskap í Noregi, Lars Vesterdal, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og Tryggve Persson, prófessor við vistfræðistofnun sænska landbúnaðarháskólans SLU í Uppsölum.

Þessi málefni eru ofarlega á baugi í Skandinavíu um þessar mundir. Spurn eftir lífmassa úr skógi til orkuframleiðslu eykst stöðugt og samhliða því hefur orðið til vaxandi markaður fyrir ýmsan annan trjávið en sjálfa trjábolina, svo sem toppa, greinar og rótarstokka. Ytra er slíkt hráefni meðal annars notað til líforkuframleiðslu fyrir fjarvarmaveitur. Sá böggull fylgir þó skammrifi að ef allt tréð er tekið út úr skóginum við skógarhögg fellur lítið til af lífrænu efni fyrir örverur og sveppi skógarins sem er grundvöllur þess að viðhalda frjósemi. Því óttast margir að með þessu sé höggvið um of í hringrás næringarefnanna í skóginum og fyrr eða síðar verði að hefja stórfelldar áburðargjafir til að viðhalda vaxtargetu skóganna.


Í útdrætti greinarinnar er bent á að skilvirkar nýtingaráætlanir skipti sköpum, eigi nýting skóga að vera sjálfbær. Þrátt fyrir það hafi því lítill gaumur verið gefinn hingað til hvaða áhrif viðteknar nýtingaráætlanir og nýtingaraðferðir hafa á frjósemi í jarðvegi skóga nyrst í tempraða beltinu og í barrskógabeltinu. Í greininni er tíunduð sú vísindalega þekking sem aflað hefur verið um áhrif mismikillar viðartekju á kolefnisbirgðir jarðvegsins og sveiflur í norðlægum skógarvistkerfum svo varpa megi ljósi á hversu mikið tapast af lífrænum kolefnissamböndum úr jarðvegi þegar lífmassi er fjarlægður úr skóginum.

Farið er í greininni yfir samhengi hefðbundinna nýtingaraðferða og jarðvegskolefnis og svo velta greinarhöfundar fyrir sér hvernig nýta megi nýja vísindaþekkingu til að bæta ráðgjöf og aðra þætti sem snerta nýtingaráætlanir. Ekki liggi þó enn fyrir nægilega traust gögn til að skera megi úr um hvaða áhrif gjörnýting trjáviðar hefur til langframa á kolefnisbúskap og frjósemi í jarðvegi skóga nyrst í tempraða beltinu og í barrskógabeltinu. Margt spili þarna inn í, til dæmis hver trjátegundin er, hvernig aðstæður eru á hverjum stað og hvaða aðferðum er beitt við skógarhöggið.

Til þess að fá af þessu betri mynd segja greinarhöfundar nauðsynlegt að ráðist verði í vandaðar langtímarannsóknir. Öðruvísi verði ekki hægt að varpa nægilega skýru ljósi á áhrif mismunandi nýtingaraðferða á kolefnisbirgðir jarðvegsins, hvaða þættir hafi mest áhrif og hversu langt megi ganga við nýtingu áður en nýtingin fer að hafa veruleg áhrif á kolefnisbúskapinn í jarðveginum. Enn sé langt í land að nægileg vísindaleg þekking liggi fyrir en um leið sé orðið mjög aðkallandi að skógariðnaðurinn geti fengið hagnýta leiðsögn og ráðgjöf um viðarnýtingu. Þar til þetta bil hafi verið brúað sé mikilvægt að yfirvöld og vottunaraðilar leiti eftir föngum álits og ráðgjafar sérfræðinga.

Texti: Pétur Halldórsson