Víði má nýta með margvíslegum hætti ef sköpunarkrafturinn og ímyndunaraflið er nýtt. Tilraunir eru g…
Víði má nýta með margvíslegum hætti ef sköpunarkrafturinn og ímyndunaraflið er nýtt. Tilraunir eru gerðar með hljóðeinangrun, dreifingu ljóss, efnavinnslu og fleira og fleira í samvinnu SAM-félagsins og Designers & Forests.

Hægt að nýta víði á ýmsan skapandi hátt

Nýta má timbur úr íslenskum skógum á nýstárlegan hátt með því að sjóða timbrið, eima það eða vinna efni úr öskunni af því. Þannig má skapa óvænt verðmæti, til dæmis úr víði sem annars er nær ekkert nýttur. SAM-félagið, samtök skapandi fólks á Austurlandi, er með vinnustofu á verk­stæði Skógarafurða í Fljótsdal í samstarfi við bandaríska hönnunarverkefnið De­sign­ers & Forests. Fjallað var um þetta í fréttum Sjónvarps og rætt við vöru­hönnun­ar­nema og prófessor í hönnun.

Fréttin er á þessa leið:

Í Végarði í Fljótsdal er til sýnis afrakstur nokkurra vöruhönnunarnema við Listaháskóla Íslands sem ákváðu að kortleggja þá möguleika sem byggju í víði. „Við byrjuðum á núllpunkti og svo sáum við hvað þessi trjátegund er mögnuð og býður upp á marga möguleika. Til dæmis gerðum við pappír, fengum litarefni úr víðinum sem við líka gátum soðið niður og nýtt í að gera svona eins og gler. Svo er hérna salt sem við fáum úr öskunni. Svo er hérna lútur sem finnst líka í öskunni og svo er litarefni. Það er aðallega að finna í berkinum,“ segir Védís Pálsdóttir vöruhönnunarnemi.

Verkefnið sem lesa má um á vefnum thewillowproject.is er liður í byltingu sem nú á sér stað innan hönnunargeirans sem gengur út á sjálfbæra hönnun. Védís segir að einungis hiti og vatn hafi verið notuð í vinnslunni og markmiðið hafi verið að búa til hringrás efna.

Innar í Fljótsdalnum á verkstæði Skógarafurða er SAM-félagið, Samtök skapandi fólks á Austurlandi, með vinnustofu í samstarfi við bandaríska hönnunarverkefnið Designers & Forests. Íslenskir og bandarískir hönnuðir og hönnunarnemar gera tilraunir með lerki, ösp og birki. „Við sögum viðinn örþunnt og þurrkum hann til að kanna hvernig hann heldur lögun. Meiningin er að nýta hann í veggskraut og eða hljóðeinangrun. Einnig að kann möguleika hans til að dreifa ljósi,“ segir Megan Urban, próessor í hönnun við fylkisháskóla New York fylkis.

Í Skógarafurðum er til mikils að vinna að nýta afskurði og nýjasta nýtt í þeim efnum er vél sem býr til gólflista og panel. Og því fleiri hugmyndir því betra. „Þemað er að vinna hérna úr því sem fellur til sem rusl. Búa til meiri verðmæti úr afgöngunum sem verða í aðalframleiðslu. Skapa verðmæti og einhverja skemmtilega hönnun,“ segir Bjarki Már Jónsson eigandi Skógarafurða.


Texti: Pétur Halldórsson