Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og einn liðsmaður hjólaliðs Skógræktarinnar, vinnur hér …
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og einn liðsmaður hjólaliðs Skógræktarinnar, vinnur hér að smíði kerru fyrir liðshjólin og búinn að máta fákinn sinn í eitt bilið.

Skemmtilegt hópefli við sameiningu skógræktarstofnana

Tíu manna lið starfsfólks Skógræktar ríkis­ins og landshlutaverkefna í skóg­rækt tekur þátt í hjólreiða­keppn­innihjólreiðakeppninni WOW Cyclothon sem fram fer dagana 15.-17. júní í sumar. Undirbúningur er í full­um gangi, liðsfólk hefur æft stíft undan­farn­ar vikur og í smíðum eru festingar á kerru fyrir reiðhjólin. Að sjálfsögðu er notað ís­lenskt timbur við smíðina.

Um helgina var unnið að því að smíða festingar á kerru sem verður höfð aftan í öðrum tveggja liðsbíla sveitarinnar. Hinn bíllinn er til hvíldar en í þessum verða þau sem hjóla hverju sinni og aftan í honum verður kerran góða. Alltaf verða fimm í einu sem skiptast á að hjóla en hin fimm hvílast í hvíldarbílnum. Tveimur hjólandi verður skipt út reglulega og tvö úthvíld koma í staðinn. Ekki er víst að fólk nái að sofa mikið á leiðinni en þó er reynt að haga málum sem svo að allir fái góð hvíldarhlé á milli átakanna.


Liðið hefur tólf hjól með í ferðina, tíu kappreiðahjól og tvö fjallahjól. Leiðin sem hjóluð verður er ekki öll malbikuð því farið verður um Öxi sem er malarvegur niður í Berufjörð og einnig gæti orðið stuttur grófur kafli á Krýsuvíkurvegi. Sú leið er farin undir lok keppninnar til að sneiða hjá mikilli umferð á veginum frá Selfossi um Hellis­heiði og Sandskeið.

Átta hjól komast á kerruna með þessum forláta festingum sem sjást á meðfylgjandi myndum og smíðaðar eru úr sitkagreni frá Tumastöðum og úr Þjórsárdal. Efnið var aðallega afsag og afgangar sem liðið fékk frá Skógrækt ríkisins og nýttist vel í þessar grindur. Aðstoðarmenn við sögun og smíði voru Örn Grétarsson og Freyr Hreinsson. Hönnunin er stæld og stolin eftir mynd af netinu en þó endurbætt og ætti að fara vel um hjólin á leiðinni. Þessi útfærsla gerir að verkum að mjög fljótlegt er að kippa hjóli af og smeygja því upp á aftur sem er mikilvægt í hita leiksins. Hin hjólin fjögur verða höfð á hjólafestingum á hvíldarbílnum.

Hér er smíðin komin vel af stað hjá þeim Hreini og Erni Grétarssyni..">

Nokkur vandi er að skipuleggja boðkeppni sem þessa. Gert er ráð fyrir að það taki í það minnsta 45 tíma fyrir liðið að hjóla kringum landið. Lagt verður upp úr Reykja­vík undir kvöld miðvikudaginn 15. júní og sú regla er í keppninni að sá liðsmaður sem byrjar hjólreiðarnar skuli hjóla alla leið frá rásmarki að Hvalfjarðarafleggjara­n­um við göngin sunnan megi. Þar má næsti liðsmaður taka við og þá hefjast boð­hjólreiðar­n­ar. Að jafnaði hjólar hver liðs­mað­ur í 15 mínútur í einu en þó verða skiptingar væntanlega tíðari upp langar brekkur eða ef aðstæður verða erfiðar vegna veðurs.

Lið Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna kallast Skógræktin eins og meiningin er að ný og sameinuð skógræktarstofnun muni heita. Í liði Skógræktarinnar eru í stafrófsröð:

  • Björn Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
  • Björn Traustason, landfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá
  • Edda. S. Oddsdóttir, jarðvegslíffræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá
  • Eiríkur Kristinsson, aðstoðarverksmiðjustjóri hjá Lýsi hf.
  • Helga Halldórsdóttir, efnafræðingur hjá Actavis
  • Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi
  • Johan Holst, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum
  • Kristján Jónsson, skógfræðingur hjá Skjólskógum á Vestfjörðum
  • Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga

Eins og sést á nafnalistanum eru þetta ekki eingöngu starfsmenn Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna en öll hafa þau sterkar tengingar inn í skógargeiran samt sem áður. Þátttaka liðsins í keppninni er öðrum þræði eins konar hópefli, liður í að hrista saman starfsfólk þeirra stofnana sem verið er að sameina. Af sameiningunni gæti orðið strax 1. júlí ef frumvarp til laga um þessa nýju stofnun hlýtur afgreiðslu á Alþingi fyrir þinghlé 2. júní.

Svona lítur kerran út þegar smíðinni er að mestu lokið. Átta reiðhjól komast á kerruna
með þessu móti. Fljótlegt verður að kippa þeim af og smeygja upp á þegar
í keppnina verður komið. Í baksýn Freyr Hreinsson aðstoðarsmiður.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson