Skógurinn á Kirkjubæjarklaustri, Systrafoss í baksýn. Mynd: Hreinn Óskarsson
Skógurinn á Kirkjubæjarklaustri, Systrafoss í baksýn. Mynd: Hreinn Óskarsson

Vert að heimsækja skóginn á Kirkjubæjarklaustri

Eitt sinn ógnaði sandfok byggðinni á Kirkjubæjarklaustri en nú vex þar myndarlegur skógur sem státar af hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem var ríflega 25 metra hátt sumarið 2012. Annað sitkagrenitré í sama skógi er 70 cm svert í brjósthæð manns og inniheldur líklega um tvo rúmmetra af trjáviði.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, fjallar um skóginn á Kirkjubæjarklaustri í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins 2013. Hann rekur stuttlega þá sögu að eitt sinn hafi sandfok ógnað byggðinni og þess vegna hafi Klausturbærinn verið fluttur til árið 1822 og kirkjan 1859. Með merkilegu uppgræðslustarfi á Stjórnarsandi hafi dæminu verið snúið við. Þar var vatni veitt úr ánni Stjórn yfir sandinn til að flýta uppgræðslunni. Á ýmsu gekk við uppgræðsluna þar til mestallur sandurinn var friðaður fyrir beit á 8. áratugnum. Nú er Stjórnarsandur að mestu gróinn og hefur Skógræktarfélagið Mörk ræktað skóg norðan þjóðegar en sunnan hans er skjólbeltatilraun frá Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

Í grein sinni rekur Hreinn upphaf skógarins til þess að bændur á Kirkjubæjarklaustri girtu af skóglausar og á köflum gróðurlitlar brekkurnar ofan við bæinn. Lengi var þessi skógur einn stærsti einkaskógur á landinu en frá árinu 1966 hefur Skógrækt ríkisins séð um hann. Skógurinn beggja vegna Systrafoss er aðallega vaxinn birki og sitkagreni en einnig má finna reynivið og fleiri reynitegundir, blæösp, stafafuru, elritegundir, garðahlyn, álm, þöll og fleiri sjaldgæfari trjátegundir. Hæsta tréð í skóginum er rúmlega 25 metra hátt sitkagreni, sem fyrr segir.

Síðustu árin hefur aðstaða fyrir gesti skógarins verið bætt mjög með stígum, bekkjum og merkingum. Nú er stefnt að því að setja upp nýjan útsýnisstað neðan við Systrafoss til að auka öryggi þeirra fjöldamörgu ferðamanna sem þarna koma ár hvert.