(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Torfært er um skógana á Vesturlandi vegna bleytu

Helstu tíðindi úr umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi í sumar eru að nú er kominn út bæklingur um Stálpastaðaskóg með korti, gönguleiðum og öðrum upplýsingum. Gönguleið verður gerð í sumar í landi Litla-Skarðs í Norðurárdal fyrir styrk frá atvinnuvegaráðuneytinu til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Mjög blautt er nú í skógunum í Skorradal og víðar á Vesturlandi, svo mjög að erfitt er víða að fara um með vélar.

Óvenjuleg bleytutíð

Valdimar Reynisson skógarvörður segist varla muna eftir annarri eins bleytutíð að sumarlagi, ekki í áraraðir í það minnsta. Jafnvel þótt sumarið í fyrra hafi þótt blautt sé vatnsmagnið mun meira í ár, svo mjög að vélarnar sökkva í vatnsósa jarðveginn. Skógarnir líti hins vegar mjög vel út og vöxtur mikill enda hlýtt í veðri. Lítið segir hann að hafi borið á skaðvöldum í sumar, einna helst að séð hafi á birkinu framan af sumri vegna birkikembunnar. Eitthvað hafi borið á maðki á víðitegundum, aðallega staðbundið, en hvergi svo verulegt tjón væri að.

Nýr bæklingur um Stálpastaði

Lítið verður gróðursett í sumar á vegum Skógræktarinnar á Vesturlandi en þó verða settar niður um 5.000 sitkagreniplöntur á Stóru-Drageyri í Skorradal, plöntur sem ekki náðist að gróðursetja í fyrra. Um miðjan ágúst er von á Kristjáni Má Magnússyni skógverktaka með grisjunarvél sína til að grisja í Skorradal en lítið verður grisjað að öðru leyti nema hvað dálítð verður unnið í sparireitum eins og Valdimar orðar það. Til dæmis verður gerð gönguleið við Svartaklett á Stálpastöðum þar sem er bautasteinn til minningar um hjónin Hauk og Soffíu Thors sem ánöfnuðu Skógrækt ríkisins Stálpastaði 1951. Gönguleiðin verður frá bautasteininum og niður í asparlund neðan við brattan hamarinn þar sem asparslundurinn verður snyrtur og grisjaður en þar eru áhugaverðar tegundir líka eins og nordmannsþinur og sitkavíðir, segir Valdimar. Þetta verður skemmtileg gönguleið að fara, bætir hann við.

Í Stálpastaðaskógi

Helstu tíðindin úr skógunum á Vesturlandi snerta einmitt Stálpastaði því nú er kominn út nýr bæklingur um Stálpastaðaskóg. Í Stálpastaðaskógi er trjásafn með um þrjátíu merktum trjátegundum frá sjötíu stöðum á jörðinni. Margar fallegar gönguleiðir er að finna í skóginum og áningarborð eru á nokkrum stöðum. Því er óhætt að mæla með heimsókn að Stálpastöðum og ekki skemmir fyrir að hafa fallegan og fróðlegan bækling til leiðsagnar.

Styrkur til stígagerðar við Litla-Skarð

Loks er vert að nefna að nýlega fékk Skógrækt ríkisins tveggja milljóna króna styrk frá atvinnuvegaráðuneytinu til stígagerðar í landi Litla-Skarðs í Norðurárdal. Styrkurinn er hluti af þeim 380 milljónum sem varið er á árinu til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Lagður verður stígur neðan þjóðvegarins um birkiskóginn sem þar er og að gili í Norðurá neðan við Laxfoss. Á leiðinni getur fólk notið útsýnis yfir Norðurá  og til borgfirsku fjallanna og gengið í náttúrlegum íslenskum birkiskógi.

Aðeins tveir starfsmenn vinna í sumar hjá skógarverðinum á Vesturlandi sem er með minnsta móti. Valdimar Reynisson skógarvörður segir að þetta sé óþarflega lítill mannskapur til mikilla stórræða og vonast til að starfsmenn verði fleiri næsta sumar. Ekki veitir af enda skógarnir myndarlegir á Vesturlandi og umdæmið stórt.