#Vesturameríkuskógar2013

80 metra há tré og 5 metra hátt bláberjalyng

Haustið 2013 heimsótti íslenskt skógræktarfólk regnskógana í Quinault-dalnum á vestanverðum Ólympíuskaga í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Allt skógræktarfólk ætti einhvern tíma á ævinni að upplifa með berum augum og í návígi stórkostleg og risastór tré eins og þarna eru.

Mannhæðarháir burknar í degliregnskógiÓlympíuskagi í Washington-ríki er þekktur fyrir að vera eitt úrkomusamasta svæði í Bandaríkjunum. Meðalúrkoma ársins er um 3.000 mm þar sem mest rignir, en það er svipað og í Kvískerjum í Öræfum. Fáir búa þarna, e.t.v. vegna orðrómsins um að þar rigni svo mikið. Á svæðinu er hins vegar bæði stór þjóðgarður og miklir þjóðskógar en utan þeirra byggist atvinna á skógarnytjum og fiskveiðum. Þarna var því fámennt þegar íslenskt skógræktarfólk heimsótti regnskógana í Quinault-dalnum, á vestanverðum skaganum, á gullfallegum sólskinsdegi í október 2013. Þetta var jafnframt síðasta svæðið sem hópurinn heimsótti áður en farið var aftur til Seattle og svo heim.

Í þessum regnskógum ræður degli (Pseudotsuga menziesii) ríkjum og nær þar um 80 metra hæð. Undirgróðurinn mynda svo 40 metra háar marþallir og risalífviðir og í skógarbotninum 5 metra hátt bláberjalyng og mannhæðar háir burknar.

Líkt og í öðrum skógum risatrjáa sem hópurinn kom í fann maður fyrir smæð sinni þarna. Allt skógræktarfólk ætti að upplifa það að vera innan um tré sem eru ekki aðeins stórkostleg heldur RISASTÓR einhvern tíma á lífsleiðinni.

Myndir eða frásagnir duga ekki.  

Burknagróður við straumvatn í skóginum, öflugt vistkerfi með heilbrigðri vatnshringrásHæsta tréð á Íslandi er á Kirkjubæjarklaustri, um 29 m hátt sitkagreni (2021), gróðursett 1949. Suðausturland er síður en svo þekkt fyrir mikla skógrækt en þar munu líklega vaxa hæstu tré landsins héðan í frá. Tré vaxa einfaldlega ljómandi vel þar sem rignir nóg. E.t.v. mætti vera meiri skógrækt í þessum landshluta.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson
Kvikmyndataka: Hlynur Gauti Sigurðsson
Samsetning: Kolbrún Guðmundsdóttir
Fréttin var uppfærð 26.10.2021

Hvorki orð né ljósmyndir fá fyllilega lýst þeirri tilfinningu að standa í stórvöxnum skógi sem þessum