Talsvert ætti að verða tiltækt af Hrym til gróðursetningar 2015 og 2016

Aldrei hefur verið meiri uppskera af lerkifræi í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal þar sem frjóvgað er saman rússalerki og evrópulerki svo út kemur blendingsyrkið „Hrymur". Helmingi fræsins var dreift til gróðrarstöðva í vor en hinn helmingurinn geymdur til næsta árs. Því ætti talsvert að verða tiltækt af Hrym til gróðursetningar bæði 2015 og 2016.

Um þetta er fjallað í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins í grein eftir Þröst Eysteinsson með fyrirsögninni Metuppskera á Hrymsfræi. Í greininni segir Þröstur frá því að Hrymur hafi komið vel út í tilraunum víða um land, vaxið umtalsvert hraðar en rússalerki og auk þess þolað vorfrost mun betur. Lerkikynbætur hafa verið stundaðar hérlendis frá árinu 1992 og í því starfi kom fram þessi öflugi blendingur. Þröstur skrifar:

Í fræframleiðslu núna eru klónar tæps helmings trjánna sem valin voru á upphafsárunum. Því er þetta frstu kynslóðar frægarður sem hefur verið grisjaður, m.t.t. frammistöðu trjánna sem fræmæðra. Sá Hrymur sem nú er framleiddur ætti því að vera ögn betri en sá sem er í afkvæmatilraununum og smáreitum frá árunum 1999-2002.

Með öðrum orðum megum við eiga von á að þau tré sem vaxa upp af því mikla fræi sem uppskorið var í fyrra verði enn öflugri en fyrstu Hrymtrén. Um 20.000 plöntur voru afhent úr gróðrarstöðvum 2012 af fræi úr fyrstu uppskeru þessa nýja Hryms og svipað magn 2013. Lítið var hins vegar afhent nú í vor sem helgast af lélegri blómgun vorið 2012.

Þetta nefnda vor, 2012, voru trén orðin nógu stór til að þau mætti örva til meiri blómgunar. Það var gert með svokallaðri tvöfaldri skarandi hálfhringberkingu sem eldur rótarkerfinu tímabundinni streitu. Skorið er á börkinn með tilteknum hætti og tréð bregst við þessu með því að stórauka blómgun. Meiningin er að gera þetta þriðja hvert ár og því er gert ráð fyrir að þriðja hvert ár verði mikil uppskera af Hrymsfræi á Vöglum. Til að auka enn framleiðsluna verður fræhöllin á Vöglum fyllt af lerkitrjám á næstu árum og fjarlægt birki sem þar hefur verið ræktað til fræframleiðslu einnig. Birkifræið selst illa, meðal annars vegna þess hversu lágt spírunarhlutfallið hefur reynst vera. Í staðinn verður ræktað lerki og vonir standa til þess að reisa megi aðra fræhöll til að ná megi því markmiði að tryggja nægilegt framboð af þessu úrvalsgóða lerkifræi fyrir skógrækt á Íslandi.