Furukönglum safnað að lokinni grisjun

„Við losnum við að klifra í trám með því að tína könglana af greinunum eftir grisjun,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga, í sjónvarpsþættinum Landanum sem sýndur var í Sjónvarpinu sunnudaginn 20. mars.

Landinn fylgdist með þegar starfsfólk Vesturlandsskóga, Skógrækarfélags Reykjavíkur og fleira skógarfólk tíndi köngla Í Daníelslundi við Svignaskarð í Borgarfirði. Könglarnir eru síðan fluttir að Tumastöðum í Fljótshlíð þar sem frævinnslan fer fram.

Erfitt er og tímafrekt að tína köngla af svo myndarlegum furum sem eru í Daníelslundi enda þarf þá að klifra í trjánum og færa sig milli greina. Slíkt brölt er óþarfi þegar skógurinn er nýgrisjaður og greinar fallinna trjáa liggja eftir í skógarbotninum. Venjulega eru könglar tíndir á haustin, eins og fram kemur hjá Sigríði Júlíu í viðtalinu, en nú var ákveðið að nýta tækifærið fyrst verið var að grisja þennan reit.

Upplagt er að nýta tækifærið þegar skógur er grisjaður og tína köngla af
greinunum sem liggja eftir í skóginum. Hér sést ofan í einn könglasekkinn.
Mynd: Hrafn Óskarsson.

Texti: Pétur Halldórsson