Efnilegt sitkagreni í Litla-Skarði í Borgarfirði.
Efnilegt sitkagreni í Litla-Skarði í Borgarfirði.

Nauðsynlegt svo kanna megi grundvöll afurðamiðstöðvar í landshlutanum

Félag skógarbænda á Vesturlandi hlaut í gær 800 þúsund króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að gera viðarmagnsúttekt á Vesturlandi. Reiknað verður út viðarmagn í öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi. Gert er ráð fyrir að meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands taki þátt í að vinna verkið og birti niðurstöðurnar í lokaritgerð sinni.

Markmið verkefnisins er að finna út hversu mikið viðarmagn er í skógum á Vesturlandi og hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að nýta viðinn. Gögnin úr viðarmagns­áætl­un­inni má nota til markaðsgreiningar en um leið að kanna hvort raunhæft sé að stofna til afurðarmiðstöðvar viðarafurða á Vesturlandi. Með stofnun slíkrar miðstöðvar mætti byggja upp fjölbreytta atvinnu- og rannsóknarstarfsemi á sviði skógræktar.

Framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga stýrir verkefninu sem unnið verður í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Land­bún­aðar­há­skóla Íslands, Landssamtök skógareigenda og Félag skógarbænda á Vesturlandi. Meiningin er að afrakstur verkefnisins verði viðarmagnsáætlun fyrir skóga á Vesturlandi næstu 30 ár sem lögð verði til grundvallar miðstöð viðarafurða á Vesturlandi.

Gert er ráð fyrir því að meistaranemi í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands taki að sér að gera mælingarnar í samvinnu við starfsfólk Vesturlandsskóga sem sjá um að vinna kortagrunn yfir skóga á Vesturlandi, bæði skóga í einkaeigu, ríkisskóga eða skóga félagasamtaka. Meistaraneminn vinnur svo úr gögnunum ásamt leiðbeinanda sínum í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Vesturlandsskóga og birtir niðurstöðurnar í meistararitgerð sinni.

Með því að koma á fót afurðamiðstöð viðarafurða á Vesturlandi væri stigið mikilvægt skref í því að gera skógrækt á atvinnusvæðinu að þeirri atvinnugrein sem hún hefur fulla burði til að vera. Það er stefna Félags skógarbænda á Vesturlandi líkt og Landssamtaka skógareigenda að efla nytjaskógrækt og tryggja jafnt og öruggt framboð skógar­afurða. Lögð er áhersla á markaðsdrifna skógrækt og að arðsemin verði sem mest í heimabyggð. Næg eftirspurn er eftir við innanlands og útlit fyrir að svo verði áfram. Innfluttur viður hefur verið dýr allt frá efnahagshruninu og allar forsendur eru fyrir hendi svo þessi atvinnugrein geti átt sér arðvænlega framtíð.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson