Vegurinn inn með Skorradalsvatni er stórhættulegur á hálfs annars kílómetra kafla, á milli Vatnshorns og Hvamms, að mati Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, sem býr í Hvammi. Mikil hjólför eru nú í lélegum ofaníburði og ástand vegarins versnar svo þegar þau frjósa. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Garðyrkjufélag Íslands og Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra halda málþing um trjágróður í þéttbýli í sal GÍ að Síðumúla 1, Reykjavík, föstudaginn 27. febrúar. Rætt verður um aukinn trjágróður í þéttbýli, kosti trjánna í byggðinni, ýmsar ógnir sem að trjánum steðja, vandamálin sem leysa þarf þegar rækta á tré við erfiðar aðstæður við götur, um val á tegundum og fleira og fleira.
Skógræktarmál voru rædd í tæpar 40 mínútur á fundi bæjarstjórnar Akureyrar 3. febrúar. Njáll Trausti Friðbertsson bæjarfulltrúi (S) vakti máls á því að enn væri ólokið gróðursetningu í græna trefilinn í kringum byggðina á Akureyri. Ekki kostaði nema eins og eitt einbýlishús að ljúka verkinu á sjö árum og árlegt framlag yrði á við verð jepplings. Ávinningurinn yrði meira skjól í bænum, útivistarsvæði fyrir öll bæjarhverfi, kolefnisbinding og tekjur af skóginum þegar tímar líða.
Í klónatilraun með alaskaösp sem gróðursett var á Höfða á Völlum á Héraði árið 2000 kom í ljós tífaldur munur á meðalrúmmáli vaxtarmesta og vaxtarminnsta klónsins. Klónar frá hafræna loftslagsbeltinu reyndust bestir. Fjallað er um tilraunina í nýútkomnu Riti Mógilsár.
Vísindamenn við Oxford-háskólann á Englandi hafa lýst því yfir eftir eins árs yfirlegu og rannsóknir að þeir hafi fundið vænlegasta tækið sem mannkynið hefur tiltækt til að ná koltvísýringi úr andrúmsloftinu og ná tökum á hlýnun jarðar. Tré.