Eini vegurinn fyrir tvær fjölskyldur og timburflutninga úr skóginum

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Valdimar Reynisson, skógarvörð á Vesturlandi, um afleitt ástand vegarins í Skorradal milli Vatnshorns og Hvamms. Valdimar segir veginn hættulegan og til dæmis yrði ekki hlaupið að því að komast um hann með sjúkrabíl eða slökkvibíl ef eitthvað kæmi upp á. Tvær fjölskyldur treysta á þennan veg til samgangna og fjöldi fólks sem þarna á sumarbústaði auk þess sem aka þarf um veginn með timbur úr skóginum. Þetta er eini vegurinn í þessum hluta dalsins. Frétt Morgunblaðsins er á þessa leið:

Vegurinn inn með Skorradalsvatni er stórhættulegur á hálfs annars kílómetra kafla, á milli Vatnshorns og Hvamms, að mati Valdimars Reynissonar, skógarvarðar á Vesturlandi, sem býr í Hvammi. Mikil hjólför eru nú í lélegum ofaníburði og ástand vegarins versnar svo þegar þau frjósa.

Valdimar segir að Vegagerðin hafi sett efni í nýtt yfirlag á kaflann í sumar. „Það er lélegt efni því vegurinn versnaði við viðgerðina en það tel ég að sé ekki eins og menn vilja hafa það,“ segir Valdimar.

Hann segir að í þíðum í vetur verði vegurinn eitt leðjusvað.

„Vatnið er að síga úr honum núna, það koma för í drulluna og svo er komin hálka í þetta. Hann er stórhættulegur yfirferðar,“ segir Valdimar.

Hann vekur athygli á því að þetta er eini vegurinn inn dalinn. Þar séu tvær fjölskyldur með fasta búsetu og önnur hjónin þurfi að fara daglega til vinnu úr dalnum. Þá sé starfsstöð Skógræktar ríkisins í Hvammi. Unníð sé að grisjun skóganna og efnið selt Elkem á Grundartanga. Einhvern veginn þurfi að koma því úr dalnum. Þá séu mörg hundruð sumarbústaðir þarna fyrir innan og fólk þurfi að komast í þá allt árið og iðnaðarmenn sem þar vinna. „Ef það kemur eitthvað fyrir hér inni í dalnum er ekki hlaupið að því að komast þangað með sjúkrabíl eða slökkvibíl,“ segir Valdimar. Hann fékk í gær þau svör frá Vegagerðinni að sennilega yrði sendur hefill í næstu þíðu til að ryðja drullunni af veginum. Þangað til verði ástandið óbreytt.