Fagráðstefna skógræktar 2020 verður haldin á Hótel Geysi í Haukadal 18.-19. mars með þátttöku Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Afurða- og markaðsmál verða meginviðfangsefni eða þema ráðstefnunnar að þessu sinni undir yfirskriftinni „Grænir sprotar og nýsköpun“. Auglýst er eftir erindum og veggspjöldum á ráðstefnuna.
Dagatal Skógræktarinnar 2020 hefur að geyma fallegar ljósmyndir Brynju Hrafnkelsdóttur og Eddu S. Oddsdóttur af ýmsum smádýrum sem lifa á trjám. Þetta eru ekki eingöngu skaðvaldar á trjám heldur einnig smádýr sem gera trjánum gott með því að halda skaðvöldum niðri. Dagatalið er nú fáanlegt á starfstöðvum Skógræktarinnar.
Skortur er á traustum gögnum fyrir áreiðanlegt losunarbókhald skóga sem ræktaðir eru á framræstu landi. Mikilvægt er að þróa betur bindi- og losunarstuðla. Þetta kemur fram í yfirlitsgrein íslenskra vísindamanna í tímaritinu Biosciences sem sagt er frá í nýútkomnu tölublaði Bændablaðsins.
Ný rannsókn bendir til þess að beit skordýra hafi áhrif á fræframleiðslu í eldri lúpínubreiðum og geti því flýtt fyrir því að lúpínan gisni og aðrar plöntutegundir taki við. Um þetta er fjallað í grein sem birtist nýlega í vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology. Greinin er hluti af doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur, vistfræðings á rannsóknasviði Skógræktarinnar.
Um tólf þúsund lítrar af olíu og tugir tonna af koltvísýringsútblæstri sparast árlega þegar rafmagn kemst á Langadal á Þórsmörk og Bása á Goðalandi. RARIK lauk nýlega við að leggja 3.800 metra langan jarðstreng frá Húsadal yfir í Langadal á Þórsmörk og þaðan að Básum á Goðalandi. Vonast er til að hægt verði að taka strenginn í notkun á næstunni. Samhliða þessu verki var einnig lögð ný neysluvatnslögn að svæði Ferðafélags Íslands í Langadal.