Ertuyglulirfur að éta lúpínu. Svo virðist sem eldri lúpínubreiður séu veikari fyrir skordýrafaröldru…
Ertuyglulirfur að éta lúpínu. Svo virðist sem eldri lúpínubreiður séu veikari fyrir skordýrafaröldrum en ungar breiður sem enn eru í sókn. Faraldrarnir geti því stuðlað að því að annar gróður taki fyrr við af lúpínunni en ella væri. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Ný rannsókn bendir til þess að beit skordýra hafi áhrif á fræframleiðslu í eldri lúpínubreiðum og geti því flýtt fyrir því að lúpínan gisni og aðrar plöntutegundir taki við. Um þetta er fjallað í grein sem birtist nýlega í vísindaritinu Agricultural and Forest Entomology. Greinin er hluti af doktorsverkefni Brynju Hrafnkelsdóttur, vistfræðings á rannsóknasviði Skógræktarinnar.

Auk Brynju skrifa greinina tveir aðrir starfsmenn Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, þau Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson. Meðhöfundar þeirra að greininni eru Bjarni D. Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Guðmundur Halldórsson, rannsóknarstjóri Landgræðslunnar.

Viðfangsefni doktorsverkefnisins er ertuygla, aukin útbreiðsla hennar á Íslandi og skaðsemi á trjáplöntum og lúpínu. Í þessari grein er fjallað um hvaða áhrif skordýrabeit á lúpínu hefur á fræframleiðslu hennar.

Lúpína var fyrst flutt til landsins til landgræðslu árið 1945 en hún virðist hafa verið laus við skordýrabeit fyrstu áratugina, eða til árisins 1991 þegar fyrsti faraldur lirfa af innlendu fiðrildategundinni ertuyglu var skráður á lúpínu á Íslandi. Síðan hefur faraldratíðni aukist mikið og fleiri innlendar fiðrildategundir bæst í hópinn. Þær sem eru mest áberandi eru ertuygla og mófeti en þó hefur faröldrum brandyglu og skógbursta líka fjölgað. Allar þessar tegundir geta valdið skaða á ungum skógarplöntum. Um sama leyti og skordýrafaraldrar byrjuðu í lúpínu fór útbreiðslusvæði ertuyglu að stækka og byrjaði hún að valda töluverðum skaða í nýskógrækt á Suðurlandi.

Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að svara spurningunni hvort þessi aukna skordýrabeit hefur áhrif á lúpínuna á Íslandi. Rannsóknin fór fram í tveimur lúpínubreiðum á mismunandi aldri og framvindustigi á (a) Hafnarmelum, þar sem lúpína er enn þétt í öflugum vexti og (b) Markarfljótsaurum, þar sem lúpína er byrjuð að gisna og vöxtur að hægjast. Sams konar tilraunareitir með mismunandi álagi skordýrabeitar á þriggja ára tímabili voru settir upp á rannsóknarsvæðunum tveimur.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að beit hafði martæk áhrif á fjölda fræberandi stöngla og þar með fræframleiðslu á í eldri lúpínubreiðunni en ekki þeirri yngri. Framvindustig lúpínunnar skiptir miklu máli um hversu mikil áhrif skordýrabeitarinnar verða. Aukin skordýrabeit á lúpínu á Íslandi gæti því haft áhrif á dreifingu lúpínu með því draga úr fræframleiðslu í eldri breiðum og flýta fyrir framvindu þar sem hún gefur nýjum plöntum tækifæri á að koma fyrr inn þegar lúpínan verður eldri og gisnari.

Texti: Brynja Hrafnkelsdóttir og Pétur Halldórsson

Lúpína í kvöldroða. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir