Skógbursti er nýlegur skaðvaldur á trjágróðri hérlendis, til dæmis á víði og birki. En glæsilegur er…
Skógbursti er nýlegur skaðvaldur á trjágróðri hérlendis, til dæmis á víði og birki. En glæsilegur er hann óneitanlega.

Dagatal Skógræktarinnar 2020 hefur að geyma fallegar ljósmyndir Brynju Hrafnkelsdóttur og Eddu S. Oddsdóttur af ýmsum smádýrum sem lifa á trjám. Þetta eru ekki eingöngu skaðvaldar á trjám heldur einnig smádýr sem gera trjánum gott með því að halda skaðvöldum niðri. Dagatalið er nú fáanlegt á starfstöðvum Skógræktarinnar.

Í framhaldi af fugladagatali Skógræktarinnar sem vakti mikla hrifningu á síðasta ári var ákveðið að vekja athygli á smádýrunum á dagatali ársins 2020. Smádýrin eru mikilvægur hluti af lífkerfinu í skóginum og því jafnvægi sem þar þarf að ríkja svo að vistkerfið sé heilbrigt. Þær Brynja og Edda eru báðar vistfræðingar á rannsóknasviði Skógræktarinnar og flinkir ljósmyndarar. Það krefst þolinmæði og þrautseigju að ná góðum myndum af örsmáum kvikindum og þær hafa greinilega hvort tveggja eins og sjá má á myndunum á dagatalinu.

Hönnun dagatals Skógræktarinnar 2020 er Þrúður Óskarsdóttir, grafískur hönnuður hjá hönnunarstofunni Forstofunni.

Ef fólk hefur áhuga á að eignast dagatal Skógræktarinnar má hafa samband við einhverja af starfstöðvum stofnunarinnar og nálgast þar eintak. Dagatalið kostar 2.500 krónur.

Texti: Pétur Halldórsson