Látinn er í hárri elli Símon Oddgeirsson frá Dalsseli, Vestur-Eyjafjöllum, einn af velgjörðarmönnum skógræktar á Íslandi.

Símon, sem fæddur var 2. desember 1927, byggði upp myndarlegan búskap í Dalsseli í félagi við bræður sína, Einar og Ólaf, á svæði sem umlukið var áraurum Markarfljóts. Símon var framfarasinnaður og vann ötullega að því að breyta gróðurlausum malaraurum í gróðurvin og stækka ræktunarlönd. Varnargarðar vörðu lönd bræðranna fyrir flóðum úr Markarfljóti.

Á efri árum tók Símon svæði norðan nýja þjóðvegarins vestan Markarfljótsbrúar til skógræktar. Hann hóf að sá birki í stórt land norðan Dalssels rétt fyrir aldamótin 2000 og síðar girti hann skógræktargirðingu austan við það á svo til berum malaraurum. Þar breytti hann gömlum malargryfjum í tjarnir sem hann sleppti urriða í og hóf að rækta upp skóg kringum tjarnirnar í samvinnu við Suðurlandsskóga.

Fyrir nokkrum árum ákvað Símon að gefa Skógræktinni 68 ha skógræktargirðingu sem hann hafði grætt upp og látið gróðursetja tugþúsundir trjáplantna í. Markmið Símonar með gjöfinni var að tryggja áframhaldandi varðveislu og umhirðu skógarins, að haldið yrði áfram gróðursetningu í svæðið og að það yrði opnað fyrir almenningi. Hinn nýi þjóðskógur sem Símon ánafnaði Skógræktinni fékk nafnið Símonarskógur. Þar vex nú upp gróskumikill skógur kringum tjarnir sem fóstra fjölbreytt fuglalíf. Nú má finna sannkallaða paradís þar sem áður var ber malaraur og má best lýsa þeirri upplifun með tilvitnun í kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Gunnarshólma, þar sem segir:

...
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
...

Símon Oddgeirsson lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli 17. janúar og verður borinn til grafar í Stóra-Dalskirkju laugardaginn 1. febrúar. Þeir skógar sem upp eru að vaxa í Símonarskógi halda minningu Símonar á lofti um ókomna tíð.

Texti: Hreinn Óskarsson