Unnið að borgarskógrækt í spænskri borg. Mynd: UNECE
Unnið að borgarskógrækt í spænskri borg. Mynd: UNECE

Helsingjaborg í Svíþjóð er fyrst norrænna borga til að taka þátt í átaki Sameinuðu þjóðanna sem nefnist á ensku Trees in Cities Challenge sem gæti útlagst sem borgartrjáaáskorunin á íslensku. Átakinu var hleypt af stokkunum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Spáni í haust sem leið. Þar voru borgarstjórar um allan heim hvattir til þess að gefa fyrirheit um gróðursetningu tiltekins fjölda trjáa.

Frá þessu er sagt á íslenskri síðu UNRIC, upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. Fram kemur að í Evrópu hafi borgarstjórar tveggja borga auk Helsingjaborgar, Bonn í Þýskalandi og Malaga á Spáni, riðið á vaðið og tilkynnt þátttöku sina í átakinu sem hluta af loftslagsaðgerðum borganna.

Helsingborg hefur í þrjú ár í röð verið kosin umhverfisvænasta borg Svíþjóðar.

„Til þess að greiða fyrir breytingum er ekki nóg að gera áætlanir og móta stefnu. Við verðum öll að grípa til aðgerða í þágu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og ég er sannfærður um að borgir og borgarstjórar verða að vísa veginn,“ er haft eftir Peter Danielsson, borgarstjóra Helsingjaborgar.

Yfirvöld í Helsingjaborg hafa staðið fyrir gróðursetningu á tugum þúsunda trjáa.

Talið er að 75% losunar koltvísýrings eigi sér stað á þéttbýlissvæðum í heiminum og því er ljóst að ákvarðanir borgar- og sveitarstjórna skipta miklu í baráttunni við loftslagsvána. Borgarstjórar og aðrir sveitastjórnarmenn leka því mikilvægt hlutverk með loftslagsaðgerðum sínum en geta einnig fylkt íbúum með sér og öðrum sem eiga í hlut. Hreyfingin The Trees in Cities Challenge er alheimshreyfing sem UNECE, efnahagsráð Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, gengst fyrir.

„Við þurfum áþreifanlegar, raunsæjar aðgeðir í þágu loftslagsins á öllum sviðum. Þetta á ekki síst við um þéttbýlissvæði sem eru fremst í víglínunni í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ segir Olga Algayerova, forstjóri UNECE.

Með því að ganga til liðs við átakið geta borgir stuðlað að ýmsum varanlegum úrbótum í þágu loftslagsins, umhverfisins og samfélagsins:

  • Eitt tré getur bundið allt að 150 kíló af CO2 á ári
  • Tré hreinsa úr mengun úr andrúmslofti og jarðvegi
  • Skógrækt getur stuðlað að aukinni fjölbreytni lífríkis í borgum
  • Græn svæði geta eflt borgarsamfélög og aukið vellíðan
  • Tré geta hækkað fasteignaverð um 2%-10%.

Í íslensku fréttinni á vef UNRIC er greint frá því að Reykjavíkurborg hafi ekki í hyggju að svo stöddu að taka þátt í þessu átaki. Ekki sé þó er þar með sagt að borgin við sundin sé eftirbátur annarra í skógræktarmálum. Haft er eftir Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingastjóra borgarinnar, að borgin sé á fullu í gróðursetningu og styrki Skógræktarfélag Reykjavíkur  til góðra verka. Sex til sjö þúsund garðplöntur (tré og runnar) eru gróðursettar á vegum borgarinnar á ári. Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetti nærri 120 þúsund skógarplöntur 2017 og nærri 34 þúsund 2018. Gróðursett var í 38 hektara fyrra árið og 11 ha 2018.

Texti: Pétur Halldórsson eftir frétt á unric.org