Öllum er velkomið að fylgjast með meistaravörn Ellerts Arnars Maríssonar sem fer fram í Landbúnaðarh…
Öllum er velkomið að fylgjast með meistaravörn Ellerts Arnars Maríssonar sem fer fram í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 29. janúar.

Ellert Arnar Marísson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, ver meistararitgerð sína í skógfræði við náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands miðvikudaginn 29. janúar. Titill ritgerðarinnar er Viðarmagnsspá fyrir Vesturland.

Leiðbeinendur Ellerts voru Arnór Snorrason, sérfræðingur og yfirmaður loftslagsdeildar hjá Skógræktinni, Benjamín Örn Davíðsson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, Dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógvistfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs Skógræktarinnar. Prófdómari er Dr. Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Athöfnin fer fram í stofunni Borg í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri miðvikudaginn 29. janúar og hefst klukkan 14. Allir eru velkomnir!

Ágrip verkefnisins

Hagsmunaaðilar í skógrækt á Vesturlandi hafa mikla trú og áhuga á framtíð skógarauðlindarinnar. Því er þetta verkefni tilkomið með það að markmiði svara spurningum um stöðu skóga og spá fyrir um framtíðarvöxt þeirra á Vesturlandi. Allt starfsvæði Vesturlandsskóga var tekið fyrir í þessu verkefni, eins og það var fram til ársins 2016, frá Gilsfjarðarbotni í norðri að Strandaheiði í suðri. Gögn frá íslensku landsskógarúttektinni (ÍSÚ) ásamt reiknilíkaninu Ice-Forest voru notuð til að greina og spá fyrir um stöðu skóga landshlutans til næstu 30 ára.

Leitast var við að fá svör eða úrlausnir eftirfarandi atriða:

  1. Hvert er hlutfall nýtanlegra skóga af öllum ræktuðum skógum landshlutans í dag?
  2. Hvar eru þeir staðsettir?
  3. Hvernig dreifist eignarhald þeirra?
  4. Spá fyrir um vöxt þeirra með líkaninu IceForest. Tvær sviðsmyndir voru settar fram í líkaninu til að meta hvernig skógarnir þróuðust með tilliti til standandi rúmmáls og kolefnisforða, eftir því hvort þeir væru nytjaðir á tímabilinu (sviðsmynd 2; S2) eða ekki (sviðsmynd 1; S1).

Heildarflatarmál nýtanlegra ræktaðra skóga á Vesturlandi var metið 2.870 ha (± 630). Hlutfall nýtanlegra skóga var einungis 47% af öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi. Meirihluti nýtanlegra skóga var staðsettur í kringum höfuðborgarsvæðið og á sunnanverðu Vesturlandi til og með Skorradal. Um þriðjungur af nýtanlegum skógum var í eigu ríkisins, annar þriðjungur í einkaeigu og síðasti þriðjungurinn í eigu félaga og skógræktarsamtaka. Um 77% ónýtanlegra skóga á Vesturlandi fengu það mat vegna tveggja flokka: „stofnar of kræklóttir“ eða „vöxtur of lítill“.

Sviðsmyndir S1 og S2 gerðu báðar ráð fyrir standandi rúmmáli í nýtanlegum skógum upp á um 110.000 m3 (± 50.000) árið 2019, við upphaf spárinnar. Standandi rúmmál jókst í um 680.000 m3 (±200.000) við lok spár árið 2049 í S1 sem var án nýtingar. Standandi rúmmál jókst minna, eða í um 410.000 m3 (±130.000) við lok spár árið 2049 í S2 þar sem grisjanir, lokahögg og önnur umhirða verður framkvæmd á réttum tíma miðað við að hámarka timburnytjar. Líkanið IceForest áætlaði að nýtanleg viðaruppskera úr skógunum yfir spátímabilið gæti verið um 190.000 m3 (± 90.000) í S2. Þetta er það viðarmagn sem gera má ráð fyrir að aðilar sem nýta skóga Vesturlands geti nýtt með sjálfbærum hætti næstu 30 árin. Í S1 jókst áætlað magn bundins kolefnis í nýtanlegum skógum úr um 40.000 C-tonn árið 2019 í um 280.000 C-tonn árið 2049. Í S2 var aukning bundins kolefnis áætlað um 40.000 C-tonn árið 2019 í um 160.000 C-tonn árið 2049. Þó að magn kolefnis sem bundið er í skógunum sé minna í S2 þá er samt gert ráð fyrir mikilli aukningu þrátt fyrir sjálfbæra nýtingu skóganna.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson