Plöntubakkar eru verðmæti og geta nýst aftur og aftur árum saman. Skilum þeim jafnóðum til gróðrarst…
Plöntubakkar eru verðmæti og geta nýst aftur og aftur árum saman. Skilum þeim jafnóðum til gróðrarstöðvanna!

Plöntubakkar eru verðmæti og nú er lag að líta í kringum sig, taka til fyrir vorið og skila plöntubökkum sem kunna að hafa orðið eftir hjá skógræktendum vítt og breitt um landið. Ef vel er farið með bakkana og þeim skilað aftur til gróðrarstöðva þannig að þeir nýtist árum saman spörum við plastið sem fer í að framleiða bakkana. Það er allra hagur.

Gróðrarstöðvar sem framleiða skógarplöntur minna á að plöntubakkar eru eign gróðrarstöðva og í þeim felast töluverð verðmæti. Bakkarnir eru endingargóðir ef vel er með þá farið og geta nýst til ræktunar árum saman. En ef bakkar skila sér ekki til gróðrarstöðva fyrir næstu sáningartíð þarf ræktandinn að kaupa fleiri bakka og þar með eru í umferð fleiri bakkar en raunveruleg þörf er fyrir á hverjum tíma. Í þessu felst sóun sem eykur kostnað við framleiðsluna og eykur plastnotkun að óþörfu.

Safnast þegar saman kemur

Erfitt er að áætla hvað er í vanskilum af plöntubökkum á hverjum tíma. En ímyndum okkur dæmi. Setjum sem svo að tíu 67 gata plöntubakkar séu í vanskilum á 100 stöðum vítt og breitt um landið. Dæmið er tilbúningur út í loftið en gefur samt einhverja hugmynd um hvað er í húfi. Samanlagt væru þá 1.000 bakkar í vanskilum. Ef við margföldum fjölda þeirra með 67 fáum við út að hægt væri að sá fyrir 67.000 trjáplöntum í þessa bakka. Sá plöntufjöldi dygði til gróðursetningar á 26,8 hekturum lands. Það munar um minna. Þessar tölur gætu líka verið hærri.

Skógræktin tekur því undir hvatningu gróðrarstöðvanna um að bökkum sé skilað og biður alla sem tekið hafa við skógarplöntum að huga að því hvort hjá þeim leynist plöntubakkar. Skógræktarráðgjafar Skógræktarinnar leiðbeina með ánægju um hvernig er best að standa að skilum á plöntubökkum. Þetta kann að vera svolítið misjafnt eftir landshlutum, t.d. hvað varðar skil á bökkum frá skógarbændum.

Að bakka bökkum

Ef við segjum sem svo að plöntubakkar berist fram til skógræktenda getum við sagt á móti að þeir þurfi líka að berast afturábak til gróðrarstöðva. Þeir þurfa með öðrum orðum að bakka til baka heim í gróðrarstöð. Bökkum bökkunum!

Texti: Pétur Halldórsson