Frábærar yfirlitsmyndir voru teknar með flygildi (dróna) yfir skóginum í Sandlækjarmýri í lok síðasta mánaðar. Nær ekkert lerki er í grennd við þessar aspir og því nær asparryðið sér ekki á strik. Þetta sýnir að asparskóg með klónum sem móttækilegir eru fyrir ryði má auðveldlega rækta á ryðfrían hátt sé þess gætt að ekkert lerki sé í nánd.
Í myndbandi þar sem spáð er í veðrið á Íslandi árið 2050 er gert ráð fyrir því að birki geti vaxið um nær allt landið, þar á meðal hálendið. En veðurfarsbreytingarnar hafa ekki eingöngu gott í för með sér fyrir Ísland frekar en önnur svæði á jörðinni. Spáð er mikilli úrkomu á landinu um mestallt landið en síst þó á Norðaustur- og Austurlandi.
Við hleypum nú af stað nýrri myndasyrpu hér á vef Skógræktar ríkisins og köllum hana „Fyrr og nú“. Fyrsta myndaparið sendi Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi. Myndirnar eru teknar í Langadal á Þórsmörk og sýna glögglega hversu mjög birkið hefur sótt fram frá því Mörkin var friðuð fyrir beit fyrir um 80 árum. Óskað er eftir myndum af þessum toga af skóglendi vítt og breitt um landið þar sem breytingar á landi með skógarækt sjást vel.
Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum er áætlað að trjágróður bjargi árlega yfir 850 manns frá dauða þar í landi með því að hreinsa andrúmsloftið, einkum í þéttbýli. Með sama hætti eru trén talin koma í veg fyrir um 670 þúsund tilfelli bráðaeinkenna í öndunarvegi. Efnahagslegur sparnaður af þessu er metinn á um 850 milljarða íslenskra króna.
Skógræktarfélag Íslands hefur útnefnt virðulegt og rótgróið evrópulerki (Larix decidua) tré ársins 2014. Tréð stendur við Arnarholt í Stafholtstungum og verður sæmt titlinum við hátíðlega athöfn sunnudaginn 14. september kl. 14.