Trén í hinum fræga Central Park í New York gera svo sannarlega margvíslegt gagn, ekki síst fyrir hei…
Trén í hinum fræga Central Park í New York gera svo sannarlega margvíslegt gagn, ekki síst fyrir heilsu borgarbúa.

Skógar og tré draga stórkostlega úr áhrifum mengunar

Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum er áætlað að trjágróður bjargi árlega yfir 850 manns frá dauða þar í landi með því að hreinsa andrúmsloftið, einkum í þéttbýli. Með sama hætti eru trén talin koma í veg fyrir um 670 þúsund tilfelli bráðaeinkenna í öndunarvegi. Efnahagslegur sparnaður af þessu er metinn á um 850 milljarða íslenskra króna.

Nú líður fólk á Norðaustur- og Austurlandi fyrir mengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni. Suma svíður í augun, aðrir finna fyrir óþægindum í öndunarvegi. Á vef Landlæknisembættisins kemur fram að auk vatns og koltvísýrings komi nú aðallega upp brennsteinstvíoxíð (SO2). Önnur efni losni þó líka en í minna magni, efni eins og brennisteinsvetni (H2S), vetni (H2), koleinoxíð (CO), vetnisklóríð (HCl), vetnisflúoríð (HF), og helín (He). Þarna eru með öðrum orðum efni sem algengt er að finna í stórborgarlofti um allan heim. Borgarskógar og einstök tré gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr þessum efnum í andrúmslofti fólks. Ef meiri skógar væru á Íslandi tækju þeir í sig þessa mengun að nokkru leyti.

Tré fjarlægja nefnilega mengandi efni úr andrúmsloftinu. Til dæmis setjast efnisagnir á yfirborð trjánna, stofninn, greinarnar og laufblöðin. Agnirnar skolast svo burtu með regnvatni. En trén anda líka að sér lofttegundum gegnum loftaugun neðan á laufblöðunum. Loftaugun eru örlítil göt og meginhlutverk þeirra er að hleypa koltvíoxíði inn í laufblaðið og vatnsgufu og súrefni út úr því. En önnur efni í loftinu fylgja með inn um loftaugun.

Forvitnilegt er að fá að vita meira um hversu mikið trén hreinsa loftið. Til að komast dálítið nær því var gerð rannsókn sem tíundið er í grein í októberhefti tímaritsins Environmental Pollution. Markmiðið var að meta hversu mikið tré hreinsuðu loftið vítt og breitt um Bandaríkin og hvaða þýðingu þetta hefði fyrir þjóðina. Upplýsingum var safnað um tiltekna umhverfisþætti og þær settar inn í reiknilíkön. Líkönin benda til þess að tré og skógar á meginlandi Bandaríkjanna, þeim ríkjum sem liggja saman, hafi hreinsað úr andrúmsloftinu 17,4 milljónir tonna af mengandi efnum árið 2010. Þau jákvæðu áhrif sem þetta hafði á heilsu landsmanna eru metin á 6,8 milljarða dollara sem jafngildir um 850 milljörðum íslenskra króna. Að jafnaði felur þetta í sér að loftgæði hafi alls staðar batnað um nærri eitt prósentustig. 

Mest hreinsuðu trén loftið í dreifbýli enda mest af trjám þar en á hinn bóginn hafði þessi hreinsun hlutfallslega mest áhrif á heilsu fólks í þéttbýlinu. Meðal þeirra heilsufarsáhrifa sem tíunduð eru í greininni er að trén og skógarnir hafi með þessu hreinsunarstarfi sínu komið í veg fyrir dauða meira en 850 manns á einu ári og afstýrt um 670 þúsund tilfellum bráðaeinkenna í öndunarvegi.

Trjágróður er hvarvetna nálægur í Berlínarborg,
jafnvel á þéttbyggðustu strætum.

Rannsókn þessa unnu vísindamenn bandarísku alríkisskógræktarinnar, U.S. Forest Service, ásamt vísindafólki Davey Institute. Verkefnið var unnið undir hatti  Northern Research Station  (NRS) sem er rannsóknarstofnun innan alríkisskógræktarinnar. Þetta er í fyrsta skipti sem reynt er að leggja mælistiku á þessi áhrif trjánna fyrir meginhluta Bandaríkjanna. Rannsókninni stýrðu þeir  Dave Nowak og Eric Greenfield fyrir hönd NRS en Satoshi Hirabayashi og Allison Bodine fyrir hönd Davey Institute. Sú stofnun eða fyrirtæki starfar um alla Norður-Ameríku og veitir bæði þjónustu og ráðgjöf um meðferð og nýtingu skóga og annarra náttúrugæða.

Meira en 80 af hundraði Bandaríkjamanna búa í þéttbýli og því sýnir þessi rannsókn skýrt hversu mikilvæg trén eru fyrir fólkið í landinu. Upplýsingar eins og þær sem rannsóknin gefur nýtast m.a. vel til að leggja mat á verðmæti þeirra nærri 560 þúsund ferkílómetra skóga sem teljast vera innan þéttbýlissvæða í Bandaríkjunum.

Í rannsókninni voru sérstaklega könnuð fjögur mengunarefni sem bandaríska umhverfisverndarstofnunin EPA notar sem mælikvarða á loftgæði. Þetta eru niturtvíoxíð, óson, brennisteinstvíoxíð og svifryk með ögnum minni en 2,5 míkrón. Lungnasjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar en líka taugasjúkdómar eru vandamál sem loftmengun ýtir undir. Í Bandaríkjunum voru um 130.000 dauðsföll rakin til svifryksmengunar árið 2005 og um 4.700 til ósons í andrúmslofti.

Áhrif trjáa og skóglendis til hreinna lofts eru í beinu samhengi við umfang skóglendis og fjölda trjáa á hverjum stað eða svæði. Meðalskógarþekja í Bandaríkjunum er 34,2 af hundraði en ef litið er til einstakra staða og svæða getur skógarþekjan verið mjög mismikil, allt frá 2,5 prósentum í Norður-Dakóta upp í 88,9% í New Hampshire. En fyrir lýðheilsu skipta tré sem vaxa í eða við þéttbýli mun meira máli en tré og skógar á dreifbýlissvæðum eins og fyrr er greint. Áðurnefndur Dave Nowak, annar stjórnenda rannsóknarinnar, segir að rannsóknarhópurinn hafi séð skýrt og greinilega að því hærra sem hlutfall skógarþekju sé á viðkomandi þéttbýlissvæði því meiri áhrif hafi trén á loftgæðin. Og því betur sem saman fer lofthreinsun trjánna og þéttleiki byggðar, því meiri er efnahagslegur ávinningur þess að hafa mikið af trjám í þéttbýlinu.

  • Rannsóknarskýrslan heitir „Tree and Forest Effects on Air Quality and Human Health in the United States“. Hún birtist í októberhefti tímaritsins Environmental Pollution. Skýrslunni má hala niður hér

Texti: Pétur Halldórsson