Skógurinn í Sandlækjarmýri. Sér til Stóru-Laxár og býlisins Skarðs.
Skógurinn í Sandlækjarmýri. Sér til Stóru-Laxár og býlisins Skarðs.

Asparskóg má rækta á ryðfrían hátt ef ekkert er lerkið

Frábærar yfirlitsmyndir voru teknar með flygildi (dróna) yfir skóginum í Sandlækjarmýri í lok ágústmánaðar. Myndirnar sýna iðjagrænan skóginn, sem samanstendur að langmestu leyti af klóninum 'Iðunni‘, og eru því í nokkru ósamræmi við frétt um mikið asparryð í uppsveitum Árnessýslu, sem birst hafði skömmu áður á skogur.is. Nú skal gerð tilraun til þess að útskýra þetta misræmi.

Í fréttinni af ryði í uppsveitunum birtust myndir úr blandskógi aspar (mest 'Iðunni‘) og grenis. Í þeim skógi eru einnig grúppur af lerki sem plantað var í þurrari hluta svæðisins. Lerki er eins og flestum er kunnugt nauðsynlegur millihýsill fyrir asparryðið. Í ár voraði snemma og sýking lerkisins frá föllnu asparlaufi síðasta árs virðist hafa tekist með ágætum. Þetta veldur því að ryðið fór nú af stað með miklum krafti snemma sumars og voru aspartré sem stóðu nærri lerki orðin alryðguð um miðjan júlí.

Í Sandlækjarskóginum var upphaflega ekki plantað neinu lerki. Þegar starfsmenn Mógilsár leituðu árið 2003 að „ryðfríum“ klónum í afkvæmasafni úr víxlunum Hauks Ragnarssonar (frá árinu 1995) var plantað lerki í tilraunina. Árin á eftir var töluvert ryð í öspum í þessu asparsafni en svo drapst nær allt lerkið. Fáeinar lerkiplöntur tórðu þó. Á þessum stað fundu starfsmenn Mógilsár örlítið ryð í sumar en hvergi annars staðar í skóginum.

Af þessu má draga þann lærdóm að asparskóg með klónum sem móttækilegir eru fyrir ryði má auðveldlega rækta á ryðfrían hátt sé þess gætt að ekkert lerki sé í nánd. En eins og kom fram í fyrri ryðfréttinni er mikið öryggi fólgið í því að rækta einungis klóna með ryðmótstöðu. Ekki er hægt að treysta því að lerki verði ekki plantað í grennd við asparskóginn einhvern tíma á æviskeiði hans.

Tengt efni

Texti: Halldór Sverrisson
Myndir: Rúnar Gunnarsson/www.3brot.is