Mikil úrkoma en birki geti vaxið um allt land

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í næstu viku. í aðdraganda hennar setti alþjóðlega veðurfræðistofnunin World Met Organization upp sérstakt svæði á myndbandavefnum YouTube þar sem hafa verið að tínast inn myndbönd frá ýmsum heimshornum með veðurspám fyrir sumardag árið 2050. Nú er komið inn myndband Birtu Lífar Kristinsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í myndbandinu spáir Birta Líf um veðrið 16. júlí 2050. Hún birtir líka gróðurkort af landinu eins og það er nú og eins og það gæti orðið um miðja öldina. Þá verði landið nær allt grænt á litinn og birkiskógar geti vaxið upp um fjöll og firnindi. Ekki er víst að landsmenn verði allir hrifnir af þessari veðurspá, síst ef hún gengur eftir, því þótt hlýtt verði í veðri og veðurmetin séu komin yfir 32 stig virðist Birta Líf gera ráð fyrir stóraukinni úrkomu á landinu, þó einna síst á Norðaustur- og Austurlandi. Nýjustu gögn vísindamanna bendi flest til þess að á landinu öllu verði ríkjandi hlýtt en úrkomusamt veðurfar. Því megi búast við að sumur verði að jafnaði ekki ólík því sem nýliðið sumar var á Suður- og Vesturlandi.

Loks fer Birta Líf yfir nokkuð ógnvænlegar breytingar sem talið er að muni fylgja þessum veðurbreytingum hér. Þótt aðstæður til landbúnaðar geti breyst mjög til batnaðar geti hér orðið miklar breytingar á fugla- og skordýralífi. Jöklar hopi hratt og sjórinn í kringum landið súrni. Þá versni lífskilyrði fyrir plöntusvif í hafinu sem sé undirstaða fæðukeðjunnar í sjónum, til dæmis fyrir fiska og hvali. Sömuleiðis megi vænta þess að nýjar tegundir færi sig inn á íslensk hafsvæði, sem raunar sé þegar farið að gerast og nefnir Birta Líf makrílinn sem dæmi.

Myndbandið má sjá hér:

Myndband