Árhringir notaðir til að framkalla sérstæða tónlist

Tré eru ekki bara forsenda fyrir lífi spendýra á jörðinni og þar með okkar mannanna. Þau eru endalaus uppspretta gleði og skemmtunar, veita okkur skjól, fegra umhverfið, gefa alls kyns afurðir og með hugmyndafluginu má ná lengra en margan grunar. Þegar gamli góði plötuspilarinn er tekinn til kostanna geta líka magnaðir hlutir gerst. Í ljós kemur að í trjám býr líka tónlist ef rétt er að þeim farið.

Bartholomäus Traubeck er grafískur hönnuður, fæddur í München í Þýskalandi 1987. Honum datt í hug að túlka árhringi í trjám á einhvern hátt með hljóði og gerði ýmsar tilraunir þar til hann datt niður á aðferðina sem honum þótti rétt. Hann breytti venjulegum plötuspilara þannig að í stað nálar er örsmá myndavél sem beint er með ljósi niður á plötu sem þverskorin hefur verið úr tré. Armurinn er útbúinn þannig að hann færist með ákveðnum hraða frá ystu brún plötunnar og inn að miðju. Með sérstöku forriti er það sem myndavélin nemur túlkað yfir í píanótóna. Dekksti hluti árhringjanna er það sem framkallar hljóðin og því verður tónlistin alltaf mismunandi eftir því hver trjátegundin er og raunar aldrei eins frá einni plötu til annarrar, þótt af sama trénu sé.

Á þeim rúmu fimm mínútum sem tekur arminn að fara yfir plötuna eru túlkuð í tónlist þau ár sem tók tréð að vaxa. Það geta verið 50 ár, 70 ár, 80 ár eða hvað annað. Traubeck gaf einmitt út plötu með þessari trjátónlist og titill hennar er Years. Hann notaði plötur eða platta úr trjám sem vaxið höfðu í Austurríki, tegundum eins og eik, hlyn, hnotu og beyki. Í upptökunni sem hér fylgir eru hljóð af aski. Trjátegundir vaxa mishratt og því er mislangt milli áhringjanna og sömuleiðis eru hringirnir misjafnlega reglulegir. 

Rétt er að árétta að í raun býr tónlistin ekki í trjánum heldur er mynstur tekið og túlkað yfir í hljóð. Myndavélin sem notuð er var tekin úr leikjatölvu og kallast PlayStation Eye Camera. Lítill rafmótor, svokallaður skrefmótor (stepper motor) hreyfir arminn á jöfnum hraða og svo sér forrit sem kallast Ableton Live um að flytja gögnin úr myndavélinni yfir í tölvu þar sem unnið er úr þeim. Útkoman er tónlist sem minnir mjög á tilraunakennda nútímatónlist frá hendi einhvers tónskáldsins. Bartholomäus Traubeck segist þó engan bakgrunn hafa í tónlist.

Texti: Pétur Halldórsson