Sáð í trjáplöntubeð í gróðrarstöðinni í Kjarna um 1960. Mynd úr safni Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Sáð í trjáplöntubeð í gróðrarstöðinni í Kjarna um 1960. Mynd úr safni Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Gróðrarstöðin fyrr og nú

Sólskógar og Skógræktarfélag Eyfirðinga standa fyrir opnum degi í gróðrarstöðinni í Kjarnaskógi í tilefni af því að 70 ár eru síðan byrjað var að rækta Kjarnaskóg og starfsemi gróðrarstöðvar þar hófst.

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur unnið að ræktun Kjarnaskógar frá upphafi og þar hafa margir lagt hönd á plóginn, ýmist í sjálfboðavinnu eða í vinnu hjá félaginu. Enn er sjálfboðastarf snar þáttur í ræktun og uppbyggingu í skóginum og hin síðari ár ber þar hátt gerð hjólreiðastíga sem hjólreiðafólk á Akureyri og nágrenni hefur unnið að í samvinnu við félagið.

Allt til ársins 2007 rak félagið líka gróðrarstöð í Kjarna og framleiddi trjáplöntur, seldi jólatré, garðplöntur og fleira. Þá seldi félagið reksturinn Sólskógum sem síðan hafa rekið stöðina og jafnframt átt mjög gott samstarf við Skógræktarfélag Eyfirðinga sem eftir sem áður sinnir útivistarsvæðinu í Kjarnaskógi og Naustaborgum samkvæmt samstarfssamningi við Akureyrarbæ.

Þessarar farsælu sjötíu ára sögu verður minnst á laugardag, 29. júlí, en 19. ágúst verður Skógardagur Norðurlands líka haldinn í skóginum og þá verður formlega tekið í notkun nýtt leik- og grillsvæði á Birkivelli í Kjarnaskógi.

Dagskráin á laugardag verður sem hér segir:

  • 10-16: Gróðrarstöðin opin
  • 10-16: Myndasýning, myndir sýndar frá ýmsum tímum í 70 ára sögu ræktunar í Kjarna
  • 11.00: Fræðsluganga um stöðina. Katrín Ásgrímsdóttir segir frá ræktuninni og sýnir gróðrarstöðina
  • 12.30-13.30: Grillaðar pylsur í boði. Ketilkaffi og poppkorn lagað yfir eldi
  • 13.00-15.00: Bergsveinn Þórson fræðir fólk um ræktun í sumarbústaðalöndum o.fl. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sýnir og fræðir fólk um sveppi og svepprætur á trjám
  • kl 14.00: Fræðsluganga, Gróðrarstöðin fyrr og nú. Hallgrímur Indriðason fer fyrir sögugöngu um gróðrarstöðina