Grein um 50 ára afmæli Mógilsár

Fyrir nokkru kom út fyrra tölublað ársins af Skógræktarritinu, riti Skógræktarfélags Íslands. Í ritinu er að þessu sinni fjallað um 50 ára afmæli Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá, Skrúðgarðinn á húsavík, Bolholtsskóga og margt fleira áhugavert.

Í ritinu er grein eftir Jón Geir Pétursson um heiðursvarða sem var afhjúpaður í Heiðmörk sumarið 2014 til minningar um Agner F. Kofoed-Hansen, fyrsta skógræktarstjóra landsins. Því næst ræðir Einar Örn Jónsson við Eddu Sigurdísi Oddsdóttur, sviðstjóra rannsókna hjá Skógræktinni, um Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá sem hún veitir forstöðu. Í ár er hálf öld frá því að stöðinni var hleypt af stokkunum. Edda er sjálf skógvistfræðingur og talar meðal annars um hversu birkið er berskjaldað fyrir bæði beit og skaðvöldum. Faraldrar sem herja á birkið séu tíðari nú en áður var. Komið er inn á loftslagsbreytingarnar sem nú eru í gangi og Edda bendir á að skógrækt sé eitt öflugasta tækið til að sporna gegn þeim.

Þá er löng og ítarleg grein í Skógræktarritinu um Skrúðgarðinn á Húsavík. Saga garðsins er rakinn allt aftur til skipulagsuppdráttar af bænum frá árinu 1935. Gerð hans hófst þó ekki fyrr en 1975 og áttu kvenfélagskonur á Húsavík stóran þátt í því að loks varð af þessu þarfa verkefni. Þær hafa síðan lagt gjörva hönd að verkinu en líka Rotary-menn, Garðyrkjufélag Húsavíkur, sjálfboðaliðar, bæjarstarfsmenn og fleiri. Þröstur Eysteinsson, núverandi skógræktarstjóri, var garðyrkjustjóri á Húsavík um fimm ára skeið á níunda áratugnum og vann að eflingu skrúðgarðsins en á undan honum eru nefnd m.a. Ólafur Pálsson, GuðbjörgKristinsdóttir og síðar Jan Klitgaard. Nú er í Skrúðgarðinum á Húsavík mikið trjáplöntusafn með um 150 mismunandi trjátegundum. Bragi Bergsson, höfundur greinarinnar, vinnur nú að meistararitgerð um sögu almenningsgarða á Íslandi.

Ekki er ástæða til að rekja allt efni Skógræktarritsins ítarlega en grein er í ritinu eftir Jóhann Pálsson um þrjú gömul grenitré sem hann hefur fylgst með frá því hann gróðursetti þau sjálfur fyrir 70 árum. Sveinn Runólfsson skrifar fróðlega grein um Bolholtsskóga á Rangárvöllum þar sem birki tók að nema land í kjölfar landgræðslustarfs og í kjölfarið ráðist í ræktun landgræðsluskóga. Kesara Anamthawat-Jónsson skrifar grein um tvö íslensk afbrigði gulvíðis, brekkuvíði og tunguvíði, sagt er frá fræðsluferð Skógræktarfélags Íslands til Frakklands á síðasta hausti og Einar Örn Jónsson ræðir við Arnlín Óladóttur, skógfræðing og skógræktarráðgjafa hjá Skógræktinni, sem býr í Bjarnarfirði á Ströndum og segir Íslendinga geta lært margt af Skotum. Hún talar m.a. fyrir því að í afskekktari byggðum sé rétt að líta á skógræktina sem stuðning við annan búskap, starfsemi og mannlíf frekar en að einblína á timburframleiðslu.

Skógræktarritið fæst hjá Skógræktarfélagi Íslands og þar er hægt að gerast áskrifandi. Ritið kemur út tvisvar á ári.

Texti: Pétur Halldórsson