Líkatjörn komin aftur í landi Mosfells í Grímsnesi. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson
Líkatjörn komin aftur í landi Mosfells í Grímsnesi. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson

Skógræktin hefur endurheimt votlendi í Mosfelli í Grímsnesi til mótvægis við land sem tapast við gerð Brúarvirkjunar í Haukadal. Endurbleyting landsins hefur ekki áhrif á skóginn í Mosfelli en áhugavert verður að fylgjast með breytingum á fuglalífi og gróðurfari þegar votlendið nær sér aftur á strik.

Í október 2015 kom út umfangsmikil skýrsla Guðmundar Guðjónssonar, Svenju N.V. Auhage og Rannveigar Thoroddsen sem bar heitið Gróður og fuglar á framkvæmdasvæði Brúarvirkjunar. Þar var gerð grein fyrir gróðurfari og fuglalífi á efri hluta Tungufljóts í Bláskógabyggð vegna fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar, rennslisvirkjunar í Tungufljóti. Heildarflatarmál rannsóknarsvæðisins var 2,36 km2. Niðurstöður skýrslunnar voru m.a. að gróður myndi raskast á 5,5 hekturum lands og stór hluti þess svæðis væri skóg- og kjarrlendi sem myndi eyðast. Búist var við að alls færu 15 hektarar lands undir framkvæmdina.

Í leyfisferli Brúarvirkjunar gerði Skipulagsstofnun þá kröfu að votlendi yrði endurheimt í stað þess lands sem færi undir vatn. Þar sem Haukadalslandið er í umsjón Skógræktarinnar var ákveðið að finna framræst land á vegum stofnunarinnar annars staðar á Suðurlandi. Fyrir valinu varð fallegt svæði í Mosfelli í Grímsnesi þar sem áður var meðal annars falleg tjörn, Líkatjörn. Svæðið var ræst fram árið 1988 í því skyni að þar yrði ræktaður skógur. Ekkert hefur þó orðið af skógrækt þar sem mýrin var áður og því var upplagt að snúa landinu í átt til fyrra horfs með bleytingu.

Þegar fyllt var í skurði í Mosfelli nú í haust var notað efni af bökkum skurðanna. Starfsmenn Suðurtaks ehf. unnu verkið og segir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, að það hafi verið gert af mikilli fagmennsku og vel gengið um svæðið. Trausti hefur nú sent frá sér nýja skýrslu um endurheimt votlendis vegna framkvæmda við Brúarvirkjun í Tungufljóti. Hlekkur á þá skýrslu er hér fyrir neðan. Meðfylgjandi myndir tók Trausti og fleiri myndir er að finna í skýrslunni.

Örnefnið Líkatjörn en sagt vera dregið af því að lík Jóns Vídalíns biskups hafi verið þvegið í tjörninni á leið til Skálholts. Jón lést í Biskupsbrekku á Uxahryggjaleið árið 1720. Þegar affallið af tjörninni var stíflað fylltist tjörnin á ný og nú er yfirborð hennar komið í eðlilega hæð. Áhrifasvæði endurheimtarinnar eru um 10 hektarar lands og þar er gert ráð fyrir að vatnsyfirborðið muni hækka á komandi árum en áhrifanna er þegar farið að gæta. Áhugavert verður að fylgjast með breytingum á fuglalífi og gróðurfari eftir bleytinguna. Smám saman mun votlendisgróður verða meira áberandi þar sem blotnað hefur í landinu og tjörnin laðar vafalaust fljótt að sér votlendisfugla til varps og ætisleitar.

Heildarlengd skurða sem fyllt var í er um 450 metrar. Ekki er auðvelt að slá á það hversu mikil losun hefur verið frá þessu framræsta landi eða hversu mikið dregur úr losun við aðgerðirnar. Raunar snýst verkið ekki beinlínis um minnkaða losun kolefnis heldur eru þetta mótvægisaðgerðir sem felast í að búa til votlendi í stað þess sem hverfur í Haukadal.

Texti: Pétur Halldórsson