Aðalsteinn Sigurgeirsson og Hreinn Óskarsson við gróðursetningu á Hekluskógasvæðinu. Skjámynd úr þæt…
Aðalsteinn Sigurgeirsson og Hreinn Óskarsson við gróðursetningu á Hekluskógasvæðinu. Skjámynd úr þættinum Plan B á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF.

Þýska sjónvarpsstöðin ZDF fjallaði nýlega um nýskógrækt á Íslandi í þættinum Plan B. Varpað er ljósi á mikilvægi skógræktar fyrir veðurfar, loftslag og varnir gegn áhrifum eldsumbrota. Einnig er fjallað um degli sem framtíðartré í þýskum skógum og notkun elds í forvarnarskyni gegn gróðureldum í Portúgal.

Horfa á þáttinn

Þátturinn Plan B er fréttaskýringarþáttur þar sem einkum er hugað að málefnum sem snerta umhverfið, náttúruna og vistkerfi en einnig þróun á sviði viðskipta og tækni, heilbrigðis- og samfélagsmál. Þær ógnir sem steðja að skógum heimsins en einnig tækifærin sem í ógnunum felast voru til umfjöllunar í þættinum 19. september síðastliðinn. Yfirskriftin var Operation Wald og í þættinum var drepið niður fæti í þremur löndum, Þýskalandi, Portúgal og á Íslandi.

Þýska málefnið fjallaði um degli sem framtíðartré í skógrækt í Þýskalandi sem talið er eiga sér betri framtíð þar með hlýnandi loftslagi en ýmsar aðrar trjátegundir, þar á meðal þær sem vaxið hafa í landinu frá öndverðu. Þurrkar síðustu sumra hafa leikið hartnær 80 prósent þýskra skóga grátt. Í þættinum er meðal annars sýnt hvernig trjáklifurmaður nær í fræ hátt í krónu 80 ára gamals deglitrés í þýskum skógi. Skoðanir eru skiptar í landinu um hvort innflutt trjátegund skuli vera framtíðartréð í skógum landsins. En hvað er til ráða þegar innlendu tegundirnar láta undan síga?

Þátturinn skoðar líka varnir Portúgala gegn sífellt vaxandi ógn sem landinu stafar af skógareldum. Þar eru gerðar tilraunir með þátttöku evrópsku skógarstofnunarinnar EFI. Rannsakaðar eru þær aðstæður sem þarf til að skógareldar geti magnast upp en einnig gerðar tilraunir með stýrða brennslu efnis á skógarbotni til að draga úr eldhættu skógarins og stuðla að því að eldþolnar trjátegundir eins og eik komist á legg. Eldvarnar- og slökkviliðsfólk víða að úr heiminum kemur til Portúgals til að læra þær aðferðir sem þar hafa verið í þróun við að beita „köldum eldi“ í forvarnarskyni gegn skógareldum. Stýrður bruni gæti stuðlað að því að Portúgal klæðist aftur eikarskógum sem þar voru eitt sinn einkennandi.

Í Íslenska hlutanum er farið á Hekluskógasvæðið í Þjórsárdal þar sem áhorfendur fræðast um tilganginn með ræktun skóglendis í grennd við eldfjallið Heklu. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs, útskýra hvers vegna Íslendingar vilja auka skógarþekju á landinu, meðal annars hvernig skóglendi getur átt þátt í að leysa gróður- og jarðvegseyðingu, eitt stærsta umhverfisvandamál landsins. Einnig er farið yfir hvernig skógar verja landið fyrir áhrifum öskufalls í eldsumbrotum.

Þátturinn hittir líka Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra í fræhöll Skógræktarinnar í Vaglaskógi þar sem fræ lerkiblendingsins Hryms eru ræktuð. Þaðan er haldið í Kjarnaskóg þar sem Katrín Ásgrímsdóttir hjá Sólskógum segir frá skógarplöntuframleiðslu. Meðal annars eru útskýrðir kostir birkis við skóggræðslu enda byrji tegundin snemma að mynda fræ og sá sér út sjálf eins og henni er ætlað að gera á Hekluskógasvæðinu og sambærilegum skóggræðslusvæðum. Jafnframt er skoðaður lerkireitur á Suðurlandi þar sem lerkið á nú í vök að verjast vegna breyttra veðurskilyrða og annað þarf að koma í staðinn sem betur er aðlagað verðandi breytingum.

Rauði þráðurinn í þættinum, hvort sem litið er til Þýskalands, Portúgals eða Íslands, er mikilvægi skóga í aðlögun okkar að loftslagsbreytingum og útbreiðsla öflugra skógarvistkerfa til að takast á við þau verkefni sem fylgja loftslagsröskuninni. Þátturinn er á þýsku en talað er skýrt og hægt er að kveikja á þýskum skjátexta sem hjálpar þeim sem hafa einhvern grunn í þýsku til að skilja efnið.

Horfa á þáttinn

Texti: Pétur Halldórsson