Nýjar tegundir meindýra festa sífellt rætur hér á landi. Birkiþéla hefur leikið birkitré á höfuðborgarsvæðinu grátt síðari hluta sumars. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, segir að hlýnun sé líklega ástæðan fyrir því að sífellt séu fleiri tegundir að bætast við.
Sjö skarfar sáust í morgun sitjandi í aspartrjám í Eyjafjarðarsveit. Ekki er útilokað að skarfar taki upp á því að verpa í trjám á Íslandi eftir því sem skógar vaxa og tré stækka því sá er háttur þeirra í útlöndum.
Hæsta tré landsins er 70 ára á þessu ári og á nú aðeins eftir að vaxa rúman metra til að ná 30 metra hæð. Tré hafa ekki náð þessari hæð á Íslandi frá því að stórvaxnar trjátegundir þrifust á landinu fyrir milljónum ára. Tréð stendur á Kirkjubæjarklaustri og mældist 28,7 metrar á hæð nú fyrr í vikunni. Undanfarin ár hefur þetta tré hækkað um allt að hálfan metra á hverju ári og ef það vex áfram áfallalaust næstu árin ætti það að ná þrjátíu metra hæð innan fárra ára.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri flutti ávarp við upphaf aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi 30. ágúst til 1. september 2019. Þar reifaði hann svör við nokkrum spurningum um þau verkefni sem eru fram undan í skógrækt á Íslandi og almennar framtíðarhorfur. Þröstur telur að nægilegt land sé til að auka skógrækt en huga verði að auknu hlutverki verktaka við gróðursetningu. Uppbygging sé fram undan hjá gróðrarstöðvum til að mæta vaxandi eftirspurn. Nóg sé til af fræi af helstu trjátegundum þótt betur þurfi að huga að framboði á stafafurufræi og vinna áfram að aukinni fræframleiðslu á Hrym. Til framtíðar þurfi að huga að útbreiðslu birkis hærra yfir sjó og endurskoða notkun á rússalerki með hlýnandi loftslagi. Jafnframt þurfi að huga að uppbyggingu timburauðlindarinnar, meðal annars svo timbur geti leyst steinsteypu af hólmi í byggingum.
Nýjum skógræktarlögum var fagnað í ályktun á nýafstöðnum aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem fram fór í Kópavogi. Fundurinn ályktaði að tryggja þyrfti nægt fjármagn til gerðar landsáætlunar í skógrækt. Þá hvatti fundurinn ráðamenn til að tryggja skilvirka kolefnisbindingu og tegundafjölbreytni í Landgræðsluskógum og sömuleiðis var því beint til ríkisstjórnarinnar að skógræktarfélögum yrði útvegað land til skógræktar.