Sá uppsker sem sáir. Ljósmynd af kvenreklum á sitkabastarði: Pétur Halldórsson
Sá uppsker sem sáir. Ljósmynd af kvenreklum á sitkabastarði: Pétur Halldórsson

Fjórir nýir skógræktarráðgjafar hafa verið ráðnir til starfa hjá Skógræktinni og sömuleiðis þrír nýir verkefnastjórar. Auglýst var eftir fólki í þessar stöður á vordögum og er allt þetta nýja starfsfólk nú komið til starfa að fullu.

Í stöðu skógræktarráðgjafa á Austurlandi var ráðinn Kári Lefever með aðsetur á Egilsstöðum. Kári er með BS-próf í landfræði og vinnur nú að því að ljúka meistaragráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Tveir nýir skógræktarráðgjafar hafa verið ráðnir á Norðurlandi með aðsetur á Akureyri. Það eru skógfræðingarnir Guðríður Baldvinsdóttir og Sigríður Hrefna Pálsdóttir. Guðríður er með meistaragráðu í skógfræði og hefur meðal annars stundað rannsóknir á áhrifum búfjárbeitar á ungan lerkiskóg. Hún starfaði einnig á árum áður hjá Norðurlandsskógum en nú tekur hún við ráðgjöf til skógarbænda í Þingeyjarsýslum. Sigríður Hrefna er bæði kerfisfræðingur og skógfræðingur og stundar nú nám á meistarstigi í skógfræði við LbhÍ. Fjórði nýi skógræktarráðgjafinn hjá Skógræktinni er Helena Marta Stefánsdóttir sem er með meistaragráðu í skógvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur m.a. tekið þátt í stóra rannsóknarverkefninu sem kallaðist SkógVatn. Hún verður í tæplega hálfu starfi sem sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar á móti ráðgjafarstörfunum fyrir skógarbændur á Vesturlandi.

Á vordögum var líka auglýst eftir fólki í þrjár stöður verkefnastjóra hjá Skógræktinni. Ellert Arnar Marísson skógfræðingur, sem sinnt hefur skógræktarráðgjafastarfi á Vesturlandi, var ráðinn í starf verkefnastjóra samstarfsverkefna. Þar eru fyrirferðarmest samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á svæðum eins og Hekluskógasvæðinu, Hafnarsandi, Hólasandi og víðar. Íslendingar taka þátt í svokallaðri Bonn-áskorun um aukið skóglendi í þágu lands og lýðs fram til 2030. Aukin útbreiðsla birkiskóga verður stór hluti af því auk annarra skógræktarverkefna sem þjóna velferð bæði manns og náttúru.

Í stöðu verkefnastjóra stafrænna mála hjá Skógræktinni var ráðinn Bjarni Þór Haraldsson með starfstöð á Egilsstöðum. Bjarni Þór er tölvuverkfræðingur og hefur að undanförnu starfað að undirbúningi háskólanáms á Austurlandi á vegum Háskólans á Akureyri. Hann mun stýra innleiðingu á Stafrænu Íslandi hjá Skógræktinni ásamt tengdum verkefnum en einnig hafa umsjón með plöntuflutningum.

Þriðji nýi verkefnastjórinn er Úlfur Óskarsson sem er með meistaragráðu í skógvísindum og hefur starfað sem lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands um árabil. Úlfur hefur talsverða reynslu af vottunarmálum og tekur nú við sem verkefnastjóri kolefnisverkefna hjá Skógræktinni þar sem fram undan er mikið starf sem tengist gæða- og vottunarmálum, útfærslu og framkvæmd kolefnisbindingarverkefna, þróun gæðakerfa eins og  Skógarkolefnis og þess háttar.

Skógræktin býður allt þetta nýja starfsfólk velkomið og óskar því velfarnaðar í starfi.

Texti: Pétur Halldórsson