Hluti tilraunasvæðisins í Kelduhverfi. Mynd úr greininni í IAS
Hluti tilraunasvæðisins í Kelduhverfi. Mynd úr greininni í IAS

Grein um fyrstu rannsóknina sem gerð er á áhrifum misþungrar sumarbeitar sauðfjár á rússalerki er komin út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að óhætt sé að nýta ungan, óblandaðan lerkiskóg til sumarbeitar.

Enskur titill greinarinnar er Impact of different stocking densities of sheep on establishing stands of Larix sibirica in Iceland. Fyrsti höfundur hennar er Guðríður Baldvinsdóttir en meðhöfundar Sigþrúður Jónsdóttir og Bjarni Diðrik Sigurðsson. Greinin tilheyrir hefti 33/2020 af ritinu Icelandic Agricultural Sciences sem nú orðið kemur eingöngu út rafrænt.

Rannsóknin var tveggja ára meistararannsókn Guðríðar og fyrsta rannsóknin sem gerð er á áhrifum misþungrar sumarbeitar sauðfjár á rússalerki sem er mest ræktaða trjátegundin til nytjaskógræktar hérlendis. Skoðuð voru áhrif þrenns konar beitarþunga á ungan (9-14 ára) lerkiskóg í Kelduhverfi þar sem einstök lerkitré voru á bilinu 12 til 301 cm há.

Helstu niðurstöður

Beitin hafði mælanleg áhrif á botngróður beittu svæðanna bæði árin, sem jukust með beitarþunga. Sumarbeitin hafði hins vegar ekki nein áhrif á vöxt né viðgang lerkisins og engar skemmdir mældust á toppsprotum þess eftir tvö sumur. Það fundust þó marktæk beitaráhrif á hliðargreinar trjánna í þungbeitta og meðalbeitta beitarhólfinu seinna sumarið, en aðeins á stærri trjám og engin lerkitré minni en 50 cm á hæð voru bitin.

Rússalerki er almennt ekki eftirsótt af sauðfé og niðurstöður þessarar tilraunar gefa til kynna að óhætt er nýta ungan, óblandaðan lerkiskóg til sumarbeitar, óháð beitarþunga. Bent skal á að niðurstöðurnar eiga ekki endilega við vor- eða haustbeit sauðfjár, né beit í skógum sem innihalda aðrar trjátegundir í bland. Algjör beitarfriðun hefur um langan aldur verið aðgerð sem beitt er við upphaf nær allrar skógræktar hér, óháð trjátegunum eða öðrum aðstæðum. Það er í raun ótrúlegt hversu fáar rannsóknir eru til í sauðfjárræktarlandinu Íslandi á samspili búsmala og skógrækt eftir 120 ára sögu slíkrar ræktunar hér. Það er því mikill fengur í þessari rannsókn Guðríðar og félaga.

Nýjar spurningar vakna

Eins og oft vill verða vakna jafnframt margar nýjar og mikilvægar spurningar sem leita þarf svara við, eins og höfundar benda einnig á í greininni. Til dæmis vann Guðríður spurningakönnun meðal sauðfjárbænda sem jafnframt stunda skógrækt og greint er frá í meistararitgerð hennar. Þar kom fram að aðspurðir höfðu mestan áhuga að nýta skóga sína til beitar á haustin, þegar fé er komið af fjalli, en ekki á sumrin.

Óvarlegt er að heimfæra niðurstöður af sumarbeit á lerki beint yfir á hvaða áhrif gætu orðið ef slík beit færi fram að hausti, þegar beitargróður tekur að sölna. Það er því mikilvægt að halda áfram rannsóknum á samspili sauðfjárræktar og skógræktar.

Hlekkur á greinina

Nánari upplýsingar og fróðleikur

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson