Gróðurfar í reit F4 í tilraun til hagaskógræktar á ógirtu landi þar sem sauðfé gengur. Ljósmynd: Sæm…
Gróðurfar í reit F4 í tilraun til hagaskógræktar á ógirtu landi þar sem sauðfé gengur. Ljósmynd: Sæmundur Kr. Þorvaldsson

Ekki er vænlegt til árangurs að rækta hagaskóg með því að gróðursetja lerki í ógirt land þar sem er sauðfjárbeit. Þetta er meginniðurstaða þriggja ára tilraunar sem gerð var í Húnaþingi vestra.

Árið 2016 var ráðist í átaksverkefni í búskaparskógrækt á vegum Skógræktarinnar í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda. Einn liður í verkefninu var að kanna árangur þess að rækta frá grunni gisinn lerkiskóg í ógirtum beitarhögum. Tilgangurinn var að svara því hvort spara mætti með því móti tvo þriðju kostnaðar. Ræktunin fór fram á jörðinni Fjarðarhorni, innst í Hrútafirði vestanverðum.

Gróðurfar í reit F7. Ljósmynd: Sæmundur Kr. ÞorvaldssonVerkefninu var ætlað að kanna hvort hægt væri að rækta lerkiskóg í úthaga, skepnum og beitargrösum til góða án þess að leggja í kostnaðarsamar girðingaframkvæmdir. Vitað var að þetta væri ekki gerlegt með birki sem trjátegund svo nokkurt vit væri í. Ákveðnar vísbendingar höfðu hins vegar komið fram um að hugsanlega væri rússalerki (Larix sukaczewii) nothæf tegund í þessu skyni. Vísbendingarnar voru annars vegar uppvaxinn lerkiskógur í ógirtu landi á jörðinni Skriðnafelli á Barðaströnd og hins vegar rannsókninr sem Guðríður Baldvinsdóttir vann að í meistaraverkefni sínu við LbhÍ, Áhrif mismunandi beitarþunga sauðfjár á ungan lerkiskóg og viðhorf skógar- og sauðfjárbænda til skógarbeitar.

Í hvorugu ofangreindra dæma var þó um að ræða beit í nýgróðursettum teigum. Í tilfelli Guðríðar var lerkið 9-12 ára þegar beit hófst en óljóst á hvaða aldri lerkið á Skriðnafelli var þegar einhver beit að ráði hófst þar, hugsanlega 4-5 ára.

Hagaskógur í Fjarðarhorni

Svæðið sem valið var er alls 26 hektarar í hlíðinni út með vesturströnd Hrútafjarðar ofan þjóðvegar. Landið er vel gróið og frjósamt hið neðra en ofar er fremur rýr mói og mosaþemba. 

Hér eru afmarkaðir þeir flákar sem lerkigróðursetningin fór fram í og einnig merktir sjö 100 fermetra mælifletir. Auk lerkis voru gróðursettir fjórir litlir grenilundir sem hugsaðir voru sem skjóllundir fyrir fé í hrakviðrum á meðan lerkið væri að mynda skógarskjól. Kort: Sæmundur Kr. Þorvaldsson, byggt á kortum LoftmyndaLandið sem varð fyrir valinu var talið í fremur léttri beit og mjög léttri beit að vori og fyrripart sumars. Þetta er skjóllítið land og því mátti vænta affalla af völdum veðurs. Ekki var lagður út sérstakur afgirtur viðmiðunarreitur en talið að hægt yrði að greina milli bitskemmda og kalskemmda. Upphafsþéttleiki var um 800 plöntur á hektara enda ekki stefnt að ræktun skógar til viðarnytja heldur skjóls og jarðvegsbóta.  

Áhrif beitar á nýgróðursetningu í Fjarðarhorni eru sláandi frábrugðnar vísbendingum sem gengið var út frá.

Niðurstaðan eftir þrjú vaxtarsumur

Við gróðursetningu í júní 2017 voru lagðir út sjö 100 m2 mælifletir. Að mánuði liðnum hafði plöntum fækkað lítillega (um 5%) en síðsumars árið eftir stóðu einungis 68% plantna eftir og margar með áberandi bitskemdir á toppsprota og greinum. Haustið 2019, að liðnum þremur vaxtarsumrum, fundust aðeins 9 af þeim 56 plöntum sem upphaflega voru gróðursettar, eða um 16%, og flestar þeirra hálfgerðir ræflar vegna bits og hugsanlega einnig kals.

Á göngu milli mælipunkta haustið 2019 (1,8 km) var skimað eftir plöntum í haganum og tilfinning fyrir afdrifum plantna var mjög í dúr við niðurstöður talninga. Varla sást nokkur planta í besta jarðveginum en eitthvað í rýrari hlutanum. Aðeins örfáar voru í góðu ástandi eða því ástandi sem hefði mátt vænta í beitarfriðuðu landi. Í mælipunktum F6 og F7 (bestu hagarnir) fundust engin ummerki um plöntur, hvorki lifandi né dauðar, en þeim mun meira sást af traðki og rolluskít.

Súlurit: Sæmundur Kr. ÞorvaldssonEin mæling náði inn í grenigróðursetningu. Þar stóðu í upphafi 9 greniplöntur sem enn standa, flestar þó nagaðir ræflar. Þéttleiki í hagaskóginum í Fjarðarhorni var í upphafi 800 plöntur á hektara en er nú 130 plöntur.

Niðurstaðan úr þessari tilraun er ótvíræð: Það er ekki vænlegt til árangurs að rækta ógirtan hagaskóg með lerki.     

Ef friða hefði átt ræktunarsvæðið, um 50-60 ha svæði, hefði þurft um 3 km girðingu sem kostar um 6 milljónir kr. Sú girðing hefði að öllum líkindum ekki þurft að standa nema í 5-10 ár, sé horft til áðurgreinds meistaraverkefnis Guðríðar Baldvinsdóttur.

Ekki er gert ráð fyrir framhaldi á tilrauninni í Fjarðarhorni en Sigurður bóndi þar mun fylgjast með hvort einhver trjánna ná þroska. Ítarleg skýrsla um búskaparskógræktarverkefnið í Húnaþingi vestra verður gefin út í Riti Mógilsár áður en langt um líður.

Sigurði Geirssyni og fjölskyldu hans í Fjarðarhorni eru færðar bestu þakkir fyrir ánægjuleg viðkynni og fyrirhöfn sem þau lögðu á sig við verkið. 

Texti og myndir: Sæmundur Kr. Þorvaldsson