Sænski gróðursetningarmaðurinn William Kristiansson er nýr Íslandsmeistari í gróðursetningu. Ljósmyn…
Sænski gróðursetningarmaðurinn William Kristiansson er nýr Íslandsmeistari í gróðursetningu. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Sænski gróðursetningarverktakinn William Kristiansson sem starfar fyrir Gone West setti í síðustu viku nýtt Íslandsmet í gróðursetningu trjáplantna þegar hann setti niður 17.732 birkiplöntur í Hekluskóga á einum sólarhring.

Verktakar frá Gone West hafa á síðustu vikum unnið að gróðursetningu á nokkrum svæðum og meðal annars sett niður um 300 þúsund birkiplöntur á Hekluskógasvæðinu. Þetta eru fyrsta flokks starfskraftar sem skila framúrskarandi verki sem eykur mjög líkurnar á að plöntur lifi og nái að vaxa upp og mynda skóg.

Starfsmenn Skógræktarinnar og Landgræðslunnar hafa haft í nógu að snúast að flytja plöntur á gróðursetningarsvæðin í Hekluskógum þessar vikur enda afköst gróðursetningarfólksins mikil. Afköstin hafa komist upp í rúmlega 50 þúsund plöntur á dag þegar hæst lét. Og William Kristiansson er ekki eini afreksmaðurinn á vegum Gone West. Aðrir starfsmenn hafa ekki látið sitt eftir liggja og einn daginn gróðursettu til dæmis tveir ónefndir starfsmenn þeirra yfir 10 þúsund plöntur hvor.

Þess má geta að þótt Íslandsmetið nýja sé stórafrek er nokkuð í að það jafni heimsmetið sem sett var í fyrra þegar Kanadamaðurinn Antoine Moses setti niður 23.060 tré á sama deginum. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér í nýjum gróðursetningarmetum en hvað sem því líður óskar Skógræktin William til hamingju með Íslandsmetið.

Heimild og ljósmynd: Hreinn Óskarsson
Textavinnsla: Pétur Halldórsson