Meðal efnis: Reynslan af jólatrjáarækt á Íslandi

Annað tölublað Skógræktarritsins 2014 hefur verið að berast áskrifendum síðustu daga og þar kennir að venju ýmissa grasa - eða trjáa. Tvær greinar í ritinu snerta ræktun jólatrjáa. Annars vegar fjallar Else Møller skógfræðingur um mögulega inngöngu Íslendinga í samtök jólatrjáaframleiðenda í Evrópu og Helgi Þórsson skógarbóndi skrifar ítarlega grein um reynsluna af jólatrjáarækt á Íslandi.

Fremst í þessu nýjasta tölublaði Skógræktarritsins er minnst fallins leiðtoga, Sigurðar Blöndals, fyrrverandi skógræktarstjóra sem lést í ágústmánuði. Nokkrir forystumenn í íslenskri skógrækt skrifa um hann minningarorð, þeirra á meðal Jón Loftsson, núverandi skógræktarstjóri, og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins.

Laufey B. Hannesdóttir fjallar um evrópulerkið í Arnarholti Stafholtstungum Borgarfirði sem útnefnt var tré ársins 2014 hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Tréð lét Sigurður Þórðarson, sýslumaður Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, gróðursetja árið 1909.

Else Møller skógfræðingur skrifar um mögulega inngöngu Íslendinga í samtök jólatrjáaframleiðenda í Evrópu, The Christmas Tree Grower Council of Europe - CTGCE. Íslendingum var boðið að vera áheyrnarfulltrúar á fundi samtakanna í Kaupmannahöfn í febrúar og Else telur ákveðna kosti við að taka þátt í slíku alþjóðlegu samstarfi. Nýta megi þekkingu og reynslu annarra þjóða, gæðakerfi og aðferðir við sölu- og markaðsstarf. 


Í grein sem nefnist Reynslan af jólatrjáaræktun á Íslandi bendir Helgi Þórsson, skógarbóndi í Kristnesi í Eyjafirði, á að íslensk jólatré hafi ýmislegt fram að færa í samkeppni við innfluttan nordmannsþin. Þau séu gjarnan þéttari vegna hægari vaxtar, hér megi finna tré með nettara vaxtarlag sem samsvari sér betur og við höfum margar tegundir sem gefi möguleika á miklu úrvali. Helgi fer nokkuð ítarlega yfir reynsluna af ýmsum tegundum sem jólatrjám hérlendis, ræðir um aðferðir við ræktun og umhirðu og fleira. Greininni fylgja fróðlegar ljósmyndir og stórkskemmtileg orðabók jólatrjáasalans sem fær lesandann að minnsta kosti til að brosa, ef ekki hlæja.

Þá skrifar Einar Gunnarsson skógfræðingur um ferð Skógræktarfélags Íslands um Sogn- og Firðafylki í Noregi á liðnu hausti þar sem ýmislegt var skoðað, bæði söguslóðir en ekki síður tré og skógar. Ferðafólkið fékk meðal annars að gróðursetja sitkagrenibelti á Brandsøy, sá skógarhögg, skoðaði sögunarmyllu, hitti skógareigendur og fleira og fleira.

Björk Þorleifsdóttir og Einar Þorleifsson fjalla í Skógræktarritinu um trjávernd í þéttbýli. Þau telja að skrá þurfi merk tré í þéttbýli, standa rétt að vali trjátegunda þegar gróðursett er, viðhafa refsingar fyrir ólöglegar trjáfellingar og auka fræðslu, einkum til þeirra sem sjá um trjáumhirðu í þéttbýli.


Viðtal er í ritinu við Ágúst Árnason, fyrrverandi skógarvörð í Skorradal, sem býr nú í húsi við syðri bakka Skorradalsvatns. Einar Örn Jónsson skrifar um upphaf skiptiferða norskra og íslenskra skógræktarmanna og Hallgrímur Indriðason fjallar um gróðursetningaráhöld frá upphafi til okkar daga. Einnig er í ritinu stórkostleg ljósmyndaröð úr ferðalagi Gústafs Jarls Viðarssonar og Söru Riel um skóga Kaliforníu þar sem mörg af stærstu og elstu trjám heims vaxa. Brynjólfur Jónsson skrifar sögulegt yfirlit um Skrúð við Dýrafjörð og tíundar í lok greinar það áhyggjuefni sem vaxandi umferð og átroðningur er á staðnum. Nauðsynlegt sé að vinna að lausn svo Skrúður verði áfram landi og þjóð til sóma.

Fyrir marga er ákaflega áhugaverð grein Einars Arnar Jónssonar, Móðir íslensku stafafuruskóganna, þar sem fjallað er um bæinn Skagway í Alaska. Í skógunum þar safnaði Barbara D. Kalen stafafurufræi fyrir Íslendinga í góðu samstarfi við íslenska skógræktarmenn. Margt er þar fróðlegt að finna um sögu þessa stafafurukvæmis sem að jafnaði hefur reynst öðrum stafafurukvæmum betur í skógrækt hérlendis. Fróðleg er líka grein Sveins Þorgrímssonar um tuttugu ára skógrækt í Deild í Fljótshlíð en loks er í Skógræktarritinu fjallað um aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2014 sem haldinn var á Akranesi og Einar Þorsteinsson fer yfir skógræktarárið 2013.

Áhugasamir geta gerst áskrifendur að Skógræktarritinu með því að senda tölvupóst á netfangið skog@skog.is eða hringja  í síma 551-8150. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu tölublöðin í kaupbæti.

Texti: Pétur Halldórsson