Verða til með sólarorku en ekki jarðefnaeldsneyti

Lennart Ackzell, sem starfar á skógasviði sænsku bændasamtakanna Lantbrukarnas riksförbund segir að lifandi jólatré séu miklu betri fyrir umhverfið en gervitré, sérstaklega ef fólk kaupir tré úr nágrenni sínu. Lifandi grenitré hafi vaxið í náttúrunni fyrir tilstilli sólarorkunnar en plastgrenitré séu búin til fyrir tilstilli jarðefnaeldsneytis. Að notast við plasttré sé ekki visthæf leið til að halda jól. Rætt er við Lennart í frétt á Radio Sweden, alþjóðlegum fréttavef sænska ríkisútvarpsins, Sveriges Radio.

Nýlega kom fram í könnun MMR hér á landi að 55,9% Íslendinga sem spurðir voru sögðust myndu hafa gervijólatré um þessi jól. Í Svíþjóð er staðan ekki jafnslæm samkvæmt frétt Radio Sweden því enn sé meirihluti Svía með lifandi tré um jólin. Um þrjár milljónir lifandi jólatrjáa seljast þar í landi fyrir hver jól að því er haft er eftir Lennart Ackzell. Hins vegar tekur hann fram líka að þeim fjölgi sem noti gervijólatré og það sé áhyggjuefni.

„Við verðum að finna leið til að sjálfbæru og lífrænu samfélagi,“ segir hann. „Sú ljóstillífun sem fram fer í trjám býr til sjálfbært og endurnýjanlegt efni. Þess vegna er gott að uppskera, gróðursetja á ný og stuðla að vexti í náttúrunni.“

Lennart Ackzell er líka með nokkur handhæg og sígild ráð til að koma í veg fyrir að lifandi trén felli barrið heima í stofu svo þau standi ekki nakin og föl þegar jólin ganga í garð.

Þessi fjallaþinur úr Skorradal prýðir samkomusalinn á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík nú um jólin.">

Þegar farið er með tréð inn í hús þurfi að leyfa því að laga sig að hitabreytingunni. Ekki sé gott að taka það inn úr frostinu úti og beint í ríflega tuttugu stiga hitann í stofunni. Þetta ætti að gerast í skrefum, segir hann. Ein leið sé að fara fyrst með tréð inn í bílskúr og fikra sig svo með það áfram inn í hlýjuna. Sömuleiðis sé gott að saga svolítið neðan af stofninum líkt og gjarnan er gert með afskornar rósir áður en tréð fer í vatn. Þetta auðveldi trénu að sjúga upp vatn. Og tréð þurfi líka talsvert vatn fyrsta sólarhringinn. Sjá þurfi til þess að jólatrésfóturinn sé alltaf fullur af vatni.

En þegar hátíðunum lýkur mælir Lennart Ackzell með því við fólk að það sjái til þess að tréð sé endurunnið eða endurnýtt, til dæmis með því að fara með það á viðurkennda endurvinnslustöð. Þá sé það tekið og kurlað og kurlið notað til að kynda hús og hita vatn. Mismunandi er eftir löndum hvernig kurlið er notað en versta leiðin til að farga notuðu jólatré er að urða það á sorphaug. Lennart Ackzell bendir á að lokum að sólarorkan sem geymd sé í lifandi jólatrénu geti nýst sem hitaorka heima hjá fólki og þessi ábending getur átt vel við hérlendis líka, þrátt fyrir allt heita vatnið og rafmagnið, því á mörgum heimilum og sumarhúsum er arinn eða kamína þar sem brenna má jólatrénu á nýju ári.

Með þessum skilaboðum frá skógarþjóðinni Svíum óskar Skógrækt ríkisins öllum Íslendingum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs með þökkum fyrir skógræktarárið sem er að líða. Megi nýtt ár færa okkur nýja og meiri sigra í baráttunni við að klæða landið fallegum og verðmætum skógi.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson