Meira en aldarlöng saga

Á Krókeyri, innst í Innbænum á Akureyri suður undir flugvellinum, stendur myndarlegt tvílyft timburhús sem í daglegu tali er kallað Gamla-Gróðarstöðin. Húsið og skógurinn í kring er sögulegur minnisvarði fyrir íslenska skógrækt og garðrækt. Í bókarkafla sem nefnist Eyfirskir frumkvöðlar í trjárækt og birtist í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar árið 2000 skrifa þeir Helgi Þórsson og Bjarni E. Guðleifsson um Gömlu-Gróðrarstöðina:

Ræktunarfélag Norðurlands var stofnað 1903 og sama ár gaf Akureyrarkaupstaður félaginu 25 dagsláttur (8 ha) af landi og er því lýst svo: „Land þetta er skammt fyrir innan Akureyri. Nokkur hluti þess (liðugar 10 vallardagsláttur) liggur með þjóðveginum suður frá Akureyri beggja megin við gil mikið (Naustagil). Er þar skjól gott og ýmis konar jarðvegur (mýrar, holt vallendisbrekka og melar). Hinn hlutinn (tæpar 15 vallardagsláttur) er ofar og sunnar inni við merki þjóðjarðarinnar Kjarna. Þessi hluti er flatlendur og jarðvegur mismunandi (holt, móar og mýrlendi).“ Trjárækt var strax hafin neðan við brekkuna og í Naustagili og árið 1906 var reist íbúðarhús fyrir tilraunastjórann sem síðar var mikið endurbætt. Húsið og hinn mikli trjágarður umhverfis það hefur síðan verið nefnt Gróðarstöðin. Þar fóru lengi fram merkar tilraunir í landbúnaði, fyrst á vegum Ræktunarfélagsins en frá 1947 á vegum ríkisins uns starfsemin var 1974 flutt að Möðruvöllum í Hörgárdal.. Framan af önnuðust framkvæmdastjórar Ræktunarfélagsins trjáræktina í Gróðrarstöðinni, en árunum 1915-1923 annaðist Guðrún Þ. Björnsdóttir frá Veðramóti (síðar kona Sveinbjörns í Ofnasmiðjunni og einn af stofnendum Skógræktarfélags Eyfirðinga) garðinn og Jóna M. Jónsdóttir frá Sökku í Svarfaðardal (hálfsystir Rósu húsfreyju á Sökku) á árunum 1924-1946, að tveimur árum undanskildum er Svava Skaptadóttir gegndi starfinu. Það var mikið lán að þessar konur sinntu gróðrinum af natni, þannig að Gróðrarstöðin varð víðfræg fyrir fegurð og grósku. Þær skrifuðu merkar skýrslur um vöxt og þrif trjánna á hverju ári í Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands og gerðu einnig árlegar mælingar á trjávexti.
Í brekkunni sunnan við Naustagilið lét Sigurður Sigurðsson gróðursetja ýmsar tegundir af trjáplöntum á árunum 1908-1909. „Tilgangurinn var að fá úr því skorið, hvort trjáplöntur gætu vaxið og dafnað sæmilega í óvöldu landi án nokkurrar umhirðu, fyrr en að því kæmi að þyrfti að grisja“, skrifar Ármann Dalmannsson 1955. Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, skrifar 1990: „Þessi skógarteigur (sem óx upp af gróðursetningunni 1908-1909) er einn hinn merkasti á Íslandi frá skógræktarsögulegu sjónarmiði.“

Nú orðið er talað um Gömlu-Gróðrarstöðina og í grennd við hana eru tvö söfn, Iðnaðarsafnið og Mótorhjólasafnið. Sannarlega er skógurinn í kringum húsið líka safn enda ýmsar trjátegundir að finna þar og mörg af elstu trjám landsins. Myndirnar sem hér fylgja eru teknar með aldar millibili eða svo, sú fyrri í byrjun desember 2014. Víst er að starfsemin í Gömlu-Gróðrarstöðinni hafi frá upphafi smitað mjög út frá sér og henni megi þakka að talsverðum hltua þann mikla trjáræktaráhuga sem rótgróinn er orðinn á Akureyri og nærsveitum.

Starfsemi sem á einhvern hátt tengist trjárækt og garðrækt hefur verið í Gömlu-Gróðrarstöðinni nær óslitið frá upphafi. Nú eru Norðurlandsskógar með skrifstofur í húsinu og þar er einnig Akureyrarskrifstofa Skógræktar ríkisins. Húsið var farið að láta nokkuð á sjá um aldamótin 2000 en Fasteignir Akureyrar stóðu myndarlega að endurgerð þess fyrir fáeinum árum. Skipt var um þak, fúna viði í burðarvirki, alla glugga og húsið klætt með nýju járni.

Akureyringum þykir vænt um Gömlu-Gróðrarstöðina fyrir margar sakir og vonandi verður áfram hlúð vel að húsinu og skóginum í kringum það. Síðustu ár hefur verið bætt við trjátegundum í skóginn og sett upp fræðsluskilti. Eyrin sem hét Krókeyri er löngu horfin undir uppfyllingar en heitið lifir í götunni sem Gamla-Gróðrarstöðin stendur við og var eitt sinn hluti af þjóðvegi 1.

Heimild: Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.), 2000. Ásýnd Akureyrar, skógar að fornu og nýju. Útg. Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Texti: Pétur Halldórsson
Yngri mynd: Pétur Halldórsson