Lerkiplanta af blendingsyrkinu 'Hrym' sem gróðursett var í mel í Fnjóskadal á liðnu sumri. Mynd: Pét…
Lerkiplanta af blendingsyrkinu 'Hrym' sem gróðursett var í mel í Fnjóskadal á liðnu sumri. Mynd: Pétur Halldórsson

Trjáplöntur komnar í um 80 hektara á þremur jörðum

Gróðursetningu er nú lokið á tveimur þeirra þriggja jarða Skógræktar ríkisins þar sem samið var um kolefnisbindingu við Landsvirkjun. Í landi Laxaborgar í Haukadal í Dölum hefur verið sett niður í 22 hektara og á Belgsá í Fnjóskadal 38,5 hektara. Gróðursetning er einnig komin vel af stað í Skarfanesi á Landi í Rangárþingi ytra þar sem trjáplöntur eru komnar í tæpa 20 hektara.

Á síðustu fjórum sumrum hefur Skógrækt ríkisins gróðursett í um 80 ha samtals í samstarfi við Landsvirkjun. Landsvirkjun á allan ráðstöfunarrétt á kolefnisbindingu þessara skóga til 50 ára en Skógrækt ríkisins á skógana að öðru leyti. Samningar sem þessir eru upplögð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki, stofnanir og jafnvel sveitarfélög sem vilja kolefnisjafna starfsemi sína.

Laxaborg

Hafist var handa vorið 2012 við að gróðursetja í land Laxaborgar í Haukadal í Dölum.  Þá voru settar niður 1.350 alaskaaspir af ýmsum kvæmum og 14.000 bakkaplöntur af stafafurukvæminu Skagway og birki af kvæminu Bolholt, álíka mikið af hvoru. Árið eftir var haldið áfram með sama birkikvæmið og settar niður 2.747 plöntur af því en einnig sitkagreni úr Þjórsárdal, 2.200 plöntur, og 10.050 plöntur af Skagway-stafafuru. Í sumar tóku félagar í Lionsklúbbi Búðardals að sér gróðursetningu og settu niður 3.445 aspir. Aspirnar í Laxaborg hafa verið settar í grasi gróið land. Fyrst var slegið með ruddasláttuvél og síðan borað með staurabor fyrir hverri plöntu.

Í skýrslu um verkefnið segir Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, að árangurinn sé að mestu leyti góður.  Nokkur afföll hafi þó orðið á öspinni sem gróðursett var fyrsta sumarið enda hafi þær verið óþarflega háar miðað við rótarstærð. Furan og birkið líti mjög vel út og lítil afföll þar. Heldur meiri afföll hafi orðið af sitkagreninu en lifun samt sem áður nokkuð góð þótt þetta eigi eftir að koma betur í ljós á næstu árum. Hann segir að nú teljist fullplantað í þá reiti sem skipulagðir voru í Laxaborgarlandi en meta þurfi eftir fáein ár hvort endurgróðursetningar sé þörf þar sem afföll hafa orðið.

Belgsá

Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Norðurlandi, tíundar gróðursetningar og árangur á Belgsá í Fnjóskadal þar sem verkið hófst með áburðargjöf vorið 2013. Tilbúnum áburði var dreift á um 8 hektara Belgsármela til að styrkja gróðurhuluna á melunum og koma í veg fyrir frostlyftingu plantna yfir vetrartímann. Það sumar voru gróðursettar 13.680 plöntur af rússalerkikvæminu Arkangelsk og 5.025 af kvæminu Lassinmaa, samtals 18.705 plöntur. Um haustið voru herfaðir rúmir 30 hektarar tmeð TTS-herfi til að búa í haginn fyrir gróðursetningar næsta sumars. Í júní 2014 voru svo gróðursettar 54.132 plöntur af stafafuru af Carcross-kvæmi en einnig lögð út tilraun með stafafuru og skógarfuru, alls 16,5 hektarar. Einnig var borið á allar gróðursettar plöntur í verkefninu þetta sumar, um 13 gr. af blákorni á hverja plöntu. Í sumar var verkinu haldið áfram og settar niður 34.660 plöntur, aðallega stafafura af kvæminu Watson Lake en einnig lögð út tilraun með hengibjörk. Ákveðið var að bíða með áburðargjöf á plönturnar til vorsins 2016 vegna ótta við afföll á nýgróðursettum plöntum vegna áburðargjafar.

Rúnar segir að alls séu nú komnar út ríflega 107 þúsund plöntur í 38,5 hektara. Næsta sumar verður borið á þær plöntur sem gróðursettar voru á liðnu sumri. Í tengslum við verkefnið hefur þurft að leggja rúmlega tvo kílómetra af vegum á svæðinu.

Skarfanes

Í skýrslu Hreins Óskarssonar, skógarvarðar á Suðurlandi, um gróðursetningar upp í Landsvirkjunarsamning í Skarfanesi á Landi segir að þar hafi verið hafist handa síðastliðið vor við jarðvinnslu og gróðursetningu. Gróðursettar voru 43 þúsund plöntur, alaskaösp, birki, stafafura og lerki, í um 20 hektara lands. Sett var niður rönd af birki með árbakkanum vestast á svæðinu en hinir reitirnir voru austar á svæðinu þar sem skýlla er fyrir norðan- og austanáttum.

Svæðið var skoðað í júlí og ágúst og hafði græðlingaefni af ösp sem sett var niður með vél laufgast að mestu. Tilraun sem lögð var út í byrjun júlí með mismunandi klónum alaskaaspar var einnig skoðuð og hafði nánast allt efni sem sett var niður laufgast, segir Hreinn. Fimm klónar voru settir út í tilrauninni með því að stinga niður græðlingum í sandinn. Stafafura af kvæminu Skagway í 67 hólfa bökkum hafði orðið fyrir afföllum sem Hreinn telur að kenna megi að öllum líkindum lélegu rótarkerfi eða rótarkali. Voru um 25-30% af þeim plöntum með rauðleitt barr og að stórum hluta dauðar. Því þurfi að bæta inn í þá reiti næsta vor með gróðursetningum. Í júlí var sett niður stafafura af kvæmunum Yukon og Cordova sem leit að mestu vel út síðla sumars, segir Hreinn. Í hálfan hektara var sett lerki af yrkinu 'Hrym' og bæjarstaðarbirki í rúma fimm hektara. Hvort tveggja hafði tekið vel við sér seinni partinn í sumar og verið vel lifandi að sögn Hreins. Afföll eftir fyrsta veturinn verði metin næsta sumar.

Þá bætir Hreinn við að helsta áhyggjuefnið þetta sumarið hafi verið nokkrir tugir fjár frá Skarði sem sluppu inn um opið hlið í sumarbyrjun. Náðist ekki að reka nema hluta þess út þrátt fyrir fleiri en eina tilraun. Verður að fylgjast betur með hliðum á girðingunni næsta vor og tryggja að þau verði lokuð þegar fé hefur verið sleppt út. Af þessum sökum var ekki borið á asparreitina um mitt sumar eins og til stóð til að draga úr hættu á beitarskemmdum. Verður borið á þá reiti vorið 2016. Til stendur að endurnýja hluta þeirrar girðingar milli Skarðs og Skarfaness á næsta sumri, en um hálfs km kafli girðingarinnar var endurnýjaður árið 2014. Í ágúst var ekki að sjá miklar skemmdir á nýgróðursetningunum þótt nartað hefði verið í stöku plöntu.

Texti: Pétur Halldórsson