Skógurinn og tíminn er til umfjöllunar á skógræktarráðstefnu sem haldin verður í Valaskjálf á Egilsstöðum 20. janúar í tilefni af sjötugsafmæli Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og starfslokum hans hjá Skógrækt ríkisins. Yfirskrift og dagskrá ráðstefnunnar er sú sama og þeirrar sem fresta þurfti vegna veðurs og ófærðar 2. desember. Skráningu á ráðstefnuna lýkur 11. janúar.
Birkifræi var í vikunni safnað af úrvalstrjám í Húsadal á Þórsmörk og Foldum ofan Húsadals þar sem finna má miklar breiður af ungbirki sem þar hefur sáð sér út undanfarna áratugi. Einnig var safnað greinum til ágræðslu sem notaðar verða til undaneldis við frærækt í fræhúsi. Í leiðangrinum fannst birkitré sem heita mátti að væri gallalaust, einstofna og næstum með „fullkomið“ vaxtarform.
Óvenjulega lítið er til af söluhæfum jólatrjám í ár og ólíklegt að hægt verði að anna eftirspurninni eftir íslenskum jólatrjám. Nóvembermánuður er helsti uppskerutíminn hjá þeim sem rækta jólatré. Upplýsingar um jólatrjáaræktun má finna á nýjum jólatrjáavef á skogur.is. Innflutningur ungplantna af nordmannsþin hefur nú verið bannaður en áfram er þó leyfilegt að flytja inn fullvaxin jólatré af tegundinni.
Framkvæmdir eru nú hafnar á lóð nýs þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi. Skógur hefur verið ruddur af byggingarstaðnum og jarðvinna verið boðin út. Stefnt er að því að reisa burðarvirki hússins næsta vor og að þessi nýi áningarstaður verði tilbúinn um haustið. Húsið verður eingöngu smíðað úr íslenskum viði og hæstu trén sem felld hafa verið til að afla viðar í burðarvirkið voru 22 metra há.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga, og Þórunn Pétursdóttir, landgræðsluvistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins, skrifa grein um endurhæfingu gróðurvistkerfa á Íslandi í veglegt rit, Living Land, sem nýkomið er út á vegum UNCCD, eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Í ritinu eru tugir frásagna af árangursríkum landbótaverkefnum víðs vegar um heiminn.