Jarðvinnslan var boðin út og hlaut Suðurtak á Brjánsstöðum í Grímnesi verkið sem þegar er hafið.
Jarðvinnslan var boðin út og hlaut Suðurtak á Brjánsstöðum í Grímnesi verkið sem þegar er hafið.

Stefnt að því að nýr áningarstaður verði tilbúinn haustið 2016

Framkvæmdir eru nú hafnar á lóð nýs áningarstaðar og þjónustuhúss í Laugarvatnsskógi. Skógur hefur verið ruddur af byggingarstaðnum og jarðvinna verið boðin út. Stefnt er að því að reisa burðarvirki hússins næsta vor og að þessi nýi áningarstaður verði tilbúinn um haustið.

Húsið verður eingöngu smíðað úr íslenskum viði og hæstu trén sem felld hafa verið til að afla viðar í burðarvirkið voru 22 metra há.

Tíu milljónir króna voru veittar til verkefnisins á þessu ári úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Húsið sem reist verður er byggt á verðlaunatillögu úr samkeppni um þjónustuhús fyrir þjóðskóga landsins sem haldin var 2013. Áætlað er að það kosti um 30 milljónir króna.


Í bygginguna þarf að nota stæðilega ósagaða stofna sem þurfa að vera 8-10 metra langir og ekki minna en 10 sm sverir í grennri endann. Trjábolir í burðarviðina voru felldir fyrir nokkru í Haukadal og barkflettir. Um verkið sáu þeir Einar Óskarsson og Níels Magnússon, starfsmenn Skógræktar ríkisins í Haukadal. Voru hæstu trén 22 metra há.

Í klæðningu hússins verður notað sitkagreni úr Þjórsárdal og þess efnis hefur þegar verið aflað einnig og viðurinn unninn í klæðninguna í nýju sögunarmyllunni þar. Um það sáu Jóhannes H. Sigurðsson og starfsmenn hans hjá starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal.Nýlega var skógur ruddur á byggingarstaðnum í Laugarvatnsskógi og jarðvinna hófst á mánudag. Suðurtak á Brjánsstöðum í Grímnesi fékk verkið að afloknu útboði. Teikningar og útboðsgögn eru tilbúin og lýkur útboði á burðarvirki, lögnum og rafkerfi níunda nóvember. Um lokahönnun hússins sáu Arkís arkitektar og Verkfræðistofa Þráinn og Benedikt ehf. en aðalarkitekt er Birgir Teitsson. Ívar Örn Þrastarson er byggingarstjóri.


Klæðningin tilbúin í starfstöð Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal.Einar Óskarsson verkstjóri og Níels Magnússon skógarhöggsmaður,
starfsmenn Skógræktar ríkisins í Haukadal, sáu um að fella trén
sem notuð verða í burðarvirki þjónustuhússins. Hér eru þeir hins vegar
að ryðja skóginn á byggingarstaðnum í Laugarvatnsskógi.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson