Dæmi um jólatré með vel hreinsaðan legg tilbúin til að klæðast í net og senda eða selja. Mynd: Else…
Dæmi um jólatré með vel hreinsaðan legg tilbúin til að klæðast í net og senda eða selja. Mynd: Else Møller

Innflutningur ungplantna af nordmannsþin er nú bannaður

Óvenjulega lítið er til af söluhæfum jólatrjám í ár að sögn Else Møller, skógfræðings í Vopnafirði, sem er helsti sérfræðingur landsins í jólatrjáarækt. Af þessum sökum verði líklega ekki hægt að anna eftirspurninni eftir íslenskum jólatrjám. Hún mælir þó ekki með því að skógarbændur dragi úr gæðakröfum og taki tré sem ekki standast flokkunarkerfi. Betra sé að selja fá gæðatré á sanngjörnu verði.

Nýr fræðsluvefur um jólatrjáarækt

Hér á vefnum skogur.is hefur nú verið settur upp lítill vefur um jólatré og jólatrjáaræktun. Vefurinn er enn í vinnslu en er þó að mestu fullmótaður þótt eitthvað kunni að bætast við. Meðal þess sem finna má á vefnum er dagatal jólatrjáabóndans þar sem farið er yfir helstu verkefni hvers mánaðar í jólatrjáaræktuninni. Vefinn má finna með því að smella hér.

Verkefni nóvembermánaðar

Í nóvembermánuði má byrja að höggva furur sem selja á sem jólatré þetta árið en rétt er að bíða um sinn með grenið. Ekki er alveg víst að þau tré sem merkt voru fyrr um haustið séu enn jafngóð söluvara og útlit var fyrir. Þess vegna þarf að meta þau aftur um leið og höggvið er. Óráðlegt er að byrja að höggva áður en ljóst er orðið hversu mikið muni seljast.

Í bréfi sem Else hefur sent jólatrjáaræktendum bendir hún á þau atriði sem gott er að hafa í huga áður en farið er að höggva jólatré:

 • Það er verkefni framleiðanda að sjá til að öll jólatré sem koma á markaði uppfylli ákveðnar kröfur.
 • Mikilvægt að tryggja að merkt jólatré hafi ekki misst barr, breytt um lit eða orðið fyrir  hnjaski síðan þau voru merkt.
 • Hægt er að höggva furu í nóvember en greni má ekki höggva fyrir en komið er fram í desember.
 • Best er að láta trén standa á rót eins lengi og hægt er, helst þangað til búið er að selja þau.
 • Ákveða skal hvernig skuli ganga frá trjánum í samráði við þann sem hyggst sjá um sölu þeirra.
 • Fjarlægja allt efni sem notað hefur verið til að leiðrétta og bæta form trjáa.
 • Mikilvægt er að höggva tréð eins nálægt jörð og hægt er og að hafa skurðflötinn eins hornréttan og kostur er.
 • Hæð trésins er mæld frá skurðfleti upp að grein á efsta greinakransinum.
 • Hreinsa neðstu greinarnar á leggnum þannig að hann sé u.þ.b 20 cm langur. Leggurinn á að vera beinn, ef hann er ekki beinn þarf að laga hann til (sjá mynd).
 • Hreinsa skal af trénu leifar af grasi, illgresi og öðru slíku. Ekki má vera mold á trjánum.
 • Ef trénu eru pakkað í net má ekki vera rusl með (blöð, gras eða slíkt).
 • Ef trjánum er pakkað á vörubretti er mikilvægt að allir leggir vísir í sömu átt svo auðvelt sé að telja trén.
 • Mikilvægt er að geyma trén sem búið er að höggva skjólgóðum stað utan dyra þangað til þau verða flutt. Ef trjánum er ekki pakkað í net er best að láta þau standa á leggnum, helst á rökum stað, t.d. á grasi.
 • Muna að fara vel með trén svo að þau skemmist ekki.
 • Muna að beita líkamanum rétt við verkin, hlífa baki og herðum við óeðlilegu álagi og huga að vinnuaðstöðu, tækjum og búnaði.

Innflutningabann á nordmannsþin

Innflutningur ungplantna af nordmannþin (Abies nordmanniana) er nú formlega bannaður. Bannið tók í gildi í sumar og var sett á vegna sjúkdómahættu. Sérstaklega er nú hætta á útbreiðslu sveppasjúkdómsins „Neonectria“ sem hefur valdið miklu tjóni jólatrjáaræktun erlendis.

Hægt er að lesa um innflutningabann í reglugerð nr. 189/1990 um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum. Bann á innflutningi af ungplöntum norðmannsþins kemur fram í viðbót við viðauka í 2. gr.:

Við viðauka III bætist eftirfarandi: trjáættkvísl sem bannað er að flytja til landsins (fræ eru undanskilin).
12) Þinur
(Abies spp.) til áframhaldandi ræktunar.

Enn er þó leyft að flytja inn lifandi nordmannsþin sem jólatré þótt þeim geti einnig fylgt hætta á að skaðvaldar berist til landsins.

Samstarf við Norske Juletre hefst formlega 2016

Samstarf Íslendinga við norsku jólatrjáasamtökin Norske Juletre hefst formlega 1. janúar 2016. Í því felst fyrst og fremst fréttamiðlun og aðgengi að fræðsluefni sem tengist jólatrjáaræktun. Fræðsluefnið ásamt fréttabréfi verður sent út mánaðalega til þátttakenda í jólatrjáaverkefninu sem og annarra áhugamanna.     

Texti: Else Møller og Pétur Halldórsson