Íslendingar ekki vanir að hugsa 80 ár fram í tímann

Skógfræðingarnir Hrefna Jóhannesdóttir og Johan Holst hafa nú tekið við skógræktarbúinu á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem fjölskylda Hrefnu hefur sett niður meira en 1,1 milljón trjáplantna á undanförnum áratugum. Rætt var við þau í þættinum Að norðan á N4 um verkefnin í skóginum, gildi skógræktar og þá möguleika sem felast í skógrækt hérlendis.

Þau Hrefna og Johan eru nýflutt aftur til Íslands eftir nokkurra ára dvöl í Noregi og tóku í ágústmánuði við jörðinni á Silfrastöðum af föður Hrefnu, Jóhannesi Jóhannssyni. Í viðtalinu segja þau frá fagi sínu, skógfræði, og verkefnum skógfræðinga og ræða um skóginn á Silfrastöðum. Þar vinna þau að grisjun þessa dagana og nýta viðinn í girðingarstaura en einnig sem eldsneyti til að kynda húsin á bænum.

Meðal þess sem kemur til tals í viðtalinu eru allir þeir möguleikar sem felast í skógrækt fyrir bændur. Johan bendir á að verið sé að byggja upp til framtíðar en það sé líklega nokkuð óíslenskt að hugsa 80 ár fram í tímann eins og þurfi að gera í skógrækt.

En jafnvel þótt langan tíma taki að fá borðvið úr skógunum byrjar hann miklu fyrr að veita ýmis gæði og jafnvel tekjur, segja þau. Hrefna bendir á að skógurinn skapi bæði verðmæti og tekjur en einnig fjölbreytileg störf í héraði og ýmislegt fleira.

Skógarbændur á Silfrastöðum

Texti: Pétur Halldórsson