Sverrir Thorstensen við fuglamerkingar hjá Gömlu-Gróðrarstöðinni. Hér sýnir hann Hallgrími Indriðasy…
Sverrir Thorstensen við fuglamerkingar hjá Gömlu-Gróðrarstöðinni. Hér sýnir hann Hallgrími Indriðasyni hvernig kyngreina má glókoll með því að skoða litinn á gula kollinum. Mynd: Pétur Halldórsson.

Sverrir Thorstensen talar á fyrsta fræðslufundi vetrarins í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri

Í vetur verða mánaðarlegir fræðslufundir í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri eins og verið hefur undanfarin ár. Þar verður fjallað um ýmisleg efni sem snerta skóga og skógrækt með einum eða öðrum hætti. Að þessu sinni ríður á vaðið Sverrir Thorstensen, fuglamerkingamaður á Akureyri. 

Sverrir var um árabil grunnskólakennari, lengi á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði en síðast á Akureyri. Hann kenndi aðallega náttúrufræði og naut mikillar virðingar og vinsælda meðal nemenda. Ófáir hafa lagt fyrir sig náttúruvísindi af nemendum hans enda var Sverrir mjög duglegur að vekja áhuga nemendanna með lifandi kennslu og vettvangsferðum út í náttúruna. 

Sverrir hefur lengi haft mikinn áhuga á fuglum og í áratugi hefur hann stundað fuglamerkingar fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands, aðallega á Norðausturlandi en einnig í Flatey þar sem hann dvelur á hverju sumri við merkingar ásamt Ævari Petersen fuglafræðingi og fleirum. Þar stunda þeir meðal annars langtímarannsóknir á hrossagauk. Á Norðurlandi hefur Sverrir fylgst með álftahreiðrum og merkt álftir til að fylgjast með lifnaðarháttum þeirra. Hann hefur einnig rannsakað mikið skógarþröst, auðnutittling og ýmsar aðrar tegundir. Smáfuglana veiðir hann í net sem sett eru upp á fuglaslóðum. Síðan eru þeir merktir og skráðir og ef merktir fuglar finnast er merkið skoðað og fundarstaðurinn skráður. Þannig fást upplýsingar um ferðir fuglanna, hve lengi þeir lifa og fleira.

Á þeim tíma sem Sverrir hefur skoðað fugla hafa skógar vaxið upp víða og Sverrir hefur fylgst með þeim breytingum sem þetta hefur valdið á fuglalífinu. Flestar eru þessar breytingar jákvæðar. Nýjar tegundir eins og glókollur, skógarsnípa og krossnefur verpa nú í skógum landsins og auka fjölbreytnina. En ákveðnar tegundir geta líka misst varplönd sín þegar til dæmis mólendi breytist í skóglendi.

Í erindi sínu sýnir Sverrir myndir Eyþórs Inga Jónssonar, organista og fuglaáhugamanns, og ræðir um áhrif skógræktar á fuglalífið á Íslandi, um fuglamerkingar og fleira. Heitt verður á könnunni og Sverrir svarar spurningum fundarfólks. Allir eru velkomnir.

Texti: Pétur Halldórsson