Yfirlýsing frá París um nýjar aðgerðir og aukna samvinnu

Á loftslagsráðstefnunni miklu sem hófst í gær í París var haldinn sérstakur skógarmálafundur þar sem leiðtogar sautján skóglendra ríkja úr öllum byggðum heimsálfum gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um skóga og loftslagsmál.

Ríkin lýsa því yfir að skógar séu lykillausn í loftslagsmálum. Leiðtogarnir ítrekuðu nauðsyn þess að gripið yrði til virkra aðgerða til réttlátrar efnahagsþróunar í dreifbýli um leið og eyðing skóga yrði stöðvuð og endurreisn skóglendis efld að mun.

Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu leiðtogarnir:

Í París 30. nóvember 2015 viðurkennum við leiðtogarnir það nauðsynlega hlutverk sem skógar leika í heilbrigði hnattar okkar til framtíðar, í sjálfbærri þróun og uppfyllingu sameiginlegra markmiða um að hindra hættulegar loftslagsbreytingar.

Við erum staðráðnir í að efla viðleitni til verndunar skóga, verulegrar endurhæfingar skóga, votlendis og landbúnaðarlands sem hnignað hefur af mannavöldum og að stuðla að dreifbýlisþróun sem byggist á lítilli losun kolefnis.

Við erum staðráðnir í því að ganga til nauðsynlegra verka ásamt ríkisstjórnum okkar og bjóðum öðrum til samstarfs sem miði að því að skógareyðingu verði snúið við meðan við lifum. Kynntar verða margar yfirlýsingar og samstarfsverkefni um skóga og loftslagsbreytingar sem hluti af aðgerðaáætlun sem kennd er við Lima og París („Lima París Action Agenda“). Meðbyrinn sem með því fæst mun knýja okkur til að skila árangursríkri niðurstöðu í París, til góðs fyrir loftslag, mannkyn og skóga heimsins.

Skóglendu löndin sem standa að yfirlýsingunni eru: Ástralía, Brasilía, Kanada, Kólombía, Lýðveldið Kongó (Austur-Kongó), Eþíópía, Frakkland, Gabon, Þýskaland, Indónesía, Japan, Líbería, Mexíkó, Noregur, Perú, Stóra Bretland og Bandaríkin.

Fleiri yfirlýsingar frá ríkisstjórnum einstakra landa má einnig finna á vefsíðunni Stand With Forests.

Texti: Pétur Halldórsson
Aðstoð: Aðalsteinn Sigurgeirsson