Ískristallar á birki í Sigríðarstaðaskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.
Ískristallar á birki í Sigríðarstaðaskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Verður haldin í janúar

Vegna illviðrisins sem nú gengur yfir landið liggur nú fyrir að ráðstefnan „Tímavélin hans Jóns“ sem fara átti fram í Valaskjálf á Egilsstöðum á morgun, miðvikudaginn 2. desember, getur ekki farið fram eins og fyrirhugað hafði verið. Í dag var því ákveðið að fresta ráðstefnunni enda veðurútlit mjög ótryggt og horfur á að innanlandsflug muni fara úr skorðum. Sömuleiðis er ekkert ferðaveður á fjallvegum og útlit fyrir erfiða færð.

Um 150 manns höfðu skráð sig á ráðstefnuna og því stefndi í að þetta yrði einhver stærsta skógræktarráðstefna sem haldin hefur verið. Skógrækt ríkisins vonast til að áhuginn verði ekki minni á viðburðinum þótt honum þurfi að fresta um fáeinar vikur. Stefnt er að því að dagskrá ráðstefnunnar verði lítið eða ekkert breytt.

Að ráðstefnunni lokinni verður haldið kveðjuhóf til heiðurs Jóni Loftssyni sem lætur af starfi skógræktarstjóra um áramótin eftir 26 ára starf í því embætti.

Þeim sem bókað höfðu flugfar vegna ráðstefnunnar er bent á að afbóka það hið fyrsta.