Mjög mikil aðsókn hefur verið að tjaldsvæðunum á Hallormsstað og í Vaglaskógi í sumar. Hér sést yfir…
Mjög mikil aðsókn hefur verið að tjaldsvæðunum á Hallormsstað og í Vaglaskógi í sumar. Hér sést yfir Höfðavík í Hallormsstaðaskógi á góðum degi. Ljósmynd: Anna Birna Jakobsdóttir

Aðsókn að tjaldsvæðum Skógræktarinnar í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi hefur verið með mesta móti í sumar. Frá byrjun ágústmánaðar og fram til 17. ágúst voru gistinætur á Hallormsstað orðnar um 6.500 en fyrra met í ágústmánuði öllum var frá árinu 2002 þegar gistinætur urðu um 4.300. Íslendingar hafa verið mest áberandi í sumar en fjöldi útlendinga fór vaxandi þegar líða tók á sumarið.

Fallegt júníkvöld í Flatagerði, einu tjaldsvæðanna í Vaglaskógi. Eins og sjá má eru þarna ferðavagnar en engin tjöld að sjá. Hjólhýsum fjölgar og þau fara stækkandi með ári hverju. Ljósmynd: Pétur HalldórssonAð sögn Rúnars Ísleifssonar, skógarvarðar á Norðurlandi, var hagstætt veður í júnímánuði í Vaglaskógi og það endurspeglaðist í aðsókninni. Sömu sögu er að segja af því sem af er ágústmánuði sem lofar mjög góðu. Júlímánuður var hins vegar varla nema í meðallagi, segir Rúnar, enda nokkuð votviðrasamur og svalt á köflum. Gistinætur til loka júlí á Vöglum voru milli 5 og 6 þúsund frá því að svæðið var opnað í maí og til júlíloka. Þá er eftir að bæta við tölum sem eru ókomnar um aðsóknina í ágústmánuði þannig að allt lítur út fyrir að árið verði eitt það besta frá upphafi, ef ekki það besta.

Aðspurður um hvort allir Íslendingar séu meira og minna komnir með hjólhýsi aftan í bíla sína segist Rúnar ekki geta sagt til um hlutfallslega fjölgun þeirra. Á hinn bóginn séu hjólhýsin alltaf að stækka þannig að þau taki meira pláss á tjaldsvæðunum. Þrátt fyrir mikla aðsókn segir Rúnar að tjaldsvæðin í Vaglaskógi líti þokkalega vel út en þó verði að ráðast í minni háttar lagfæringar á þeim eftir sumarið. Hann segir að fólk hafi gengið vel um og hegðað sér vel í sumar ef verslunarmannahelgin er undanskilin. Þá komu nokkrir hópar sem gerðust óþarflega hávaðasamir í gleðskapnum.

Tjaldsvæðin í Vaglaskógi verða opin fram til 15. september.

Jöfn aðsókn eystra

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi segir að tíðarfarið eystra hafi verið með miklum ágætum í sumar. Reyndar hafi verið frekar þurrt í júlí en sólríkt og milt veður. Aðsóknin að tjaldsvæðunum hafi verið mikil og maí, júlí og ágúst séu fjölsóttustu mánuðir á tjaldsvæðunum frá því farið var að reka tvö tjaldsvæði í Hallormsstaðaskógi. Aðsókn hafi sjaldan eða aldrei verið svona jöfn allt sumarið, sérstaklega í júlí. Flest fólk var í skóginum dagana eftir 10. júlí og svo aftur fyrstu tvær vikurnar í ágúst.

Hér er tjaldað á hverjum bletti í Atlavík. Ljósmynd: Anna Birna Jakobsdóttir Ekki hefur gefist tími til að taka saman gistinætur á Hallormsstað enn sem komið er. Þó segir Þór að þetta verði langstærsta sumarið hingað til hvað varðar fjölda næturgesta á tjaldsvæðunum. Venjulega hefur dregið verulega úr fjöldanum eftir verslunarmannahelgi en ekkert lát var á gestakomum fyrr en nú allrasíðustu daga. Í hlýindunum nú í ágúst var algengt að fólk staldraði við í 5-6 nætur. Ágústmánuður stefnir því í algjört met. Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður hefur litið gróflega á gistináttatölur það sem af er mánuðinum. Sautjánda ágúst voru þær orðnar um 6.500 frá mánaðamótum og það er verulega hærri tala en fyrra metið í ágústmánuði sem var um 4.500 gistinætur í ágúst 2002.

Erlendum gestum hefur fjölgað verulega á tjaldsvæðunum síðustu ár með auknum ferðamannastraumi til landsins. Vegna COVID-19 hefur komum þeirra þó fækkað mikið í sumar. Þór slær á að erlendir gestir hafi verið um 90% færri í maí, 75% færri í júní og um 33% færri í júlí en síðustu ár. Síðustu daga hefur gengið vel að halda fjöldatakmarkanir bæði í Vaglaskógi og á Hallormsstað enda margar aðskildar tjaldflatir og mörg salernishús sem gerir kleift að hólfaskipta svæðunum.

Líkt og Rúnar í Vaglaskógi tekur Þór vel eftir því að hjólhýsin hafi stækkað og lengst frá því sem áður var. Þeim hafi líka fjölgað gríðarlega. Vissulega taki þau miklu meira pláss en tjöldin en það sé bara verkefni til að takast á við. Meðal þess sem huga þarf að er að allir geti haft aðgang að rafmagni.

Almennt segir Þór að fólk hegði sér vel á tjaldsvæðunum á Hallormsstað og gangi að mestu leyti vel um svæðin. Vissulega reynist þó stundum erfitt að koma ró á svæðin þegar mikill fjöldi er samankominn um helgar. Ekkert sé óeðlilegt við það enda langi suma að syngja aðeins fram á kvöldið. Björgunarsveitarfólk hefur aðstoðað við að halda öllu í röð og reglu á kvöldin og nóttunni.

Þór tekur undir með Rúnari að tjaldsvæðin líti ótrúlega vel út þrátt fyrir mikinn ágang í langan tíma nú í sumar. Mikið hjálpi gróðrinum að vel hafi rignt inn á milli í sumar. Tjaldsvæðið í Atlavík verður opið fram í miðjan september og Höfðavík til loka septembermánaðar.

Önnur mynd frá Flatagerði í Vaglaskógi um Jónsmessu 2020. Ljósmynd: Pétur Halldórsson