Davide Frigo, meistaranemi við háskólann í Padoa Ítalíu, við mælingar til útreikninga á kolefnisbind…
Davide Frigo, meistaranemi við háskólann í Padoa Ítalíu, við mælingar til útreikninga á kolefnisbindingu skógarvistkerfis. Ljósmynd: Arnór Snorrason

Í nýútkomnu tölublaði af Riti Mógilsár er lýst úttekt á kolefnisbindingu sem átt hefur sér stað í Kolviðarskógi á Hofssandi frá síðustu mælingu árið 2014. Í ljós kemur m.a. að töluverð sjálfsáning birkis á sér stað sem mun hraða kolefnisbindingu svæðisins. Þá hefur binding í trjágróðri á svæðinu tvöfaldast á þeim sex árum sem liðu milli mælinga. Í spá fram til 2030 er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu á árlegri bindingu.

Höfundur skýrslunnar er Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Sú úttekt sem kynnt er í skýrslunni var unnin fyrir og greidd af Kolvið. Kolviður er sjóður sem hefur það meðal annars að markmiði að auka bindingu kolefnis í skógar­vistkerfum í þeim tilgangi að draga úr styrk koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Kolviður býður fyrir­tækjum og einstaklingum þjónustu við að binda kol­efni úr andrúmslofti með nýskógrækt. Fyrsta skóg­ræktar­svæði Kolviðar er svæðið sem hér var tekið út og er kallað Hofssandur.

Markmið úttektarinnar var að meta á vísindalegan og viðurkenndan hátt kolefnisbindingu sem átt hef­ur sér stað frá úttekt sem gerð var haustið 2014 og fram að hausti 2020. Við bætast mælingar á svæðum sem voru gróðursett árið 2013. Meðal athyglisverðra niðurstaðna er töluverð sjálfsáning birkis sem kom í ljós á frjósamasta hluta svæðisins og í talsverðum þéttleika. Ljóst er að í framtíðinni munu þessar sjálfsáningar hraða bindingu kolefnis á svæð­inu. Áhugavert er líka að sjá í niðurstöðunum að jafnvel þótt talsverður áburður hafi borinn á skóginn nema losunaráhrif N2O vegna áburðargjafar með tilbúnum áburði einungis broti af heildarbindingu eða tveimur prósentum. 

Hofssandur er við Stóra-Hof á Rangárvöllum. Binding á svæðinu hefur tvöfaldast frá mælingunni 2014 og í skýrslunni er sett fram spá yfir væntanlega bindingu fram til 2030. Árleg binding á svæðinu, sem er 162,3 hektarar, er nú tæplega 400 tonn af CO2 en verður komin töluvert yfir 500 tonn árið 2030 samkvæmt spánni.

Þrjár skýrslur hafa komið út í Riti Mógilsár á þessu ári um kolefnisbindingu í íslenskum skógum, tvær á íslensku og ein á ensku. Tilgangurinn með útgáfunni er ekki síst að veita upplýsingar um þær aðferðir sem beitt er við úttektir og mælingar á bindingu í skóglendi. Þetta eru meðal annars mikilvægar upplýsingar fyrir alla sem hyggja á skógrækt til kolefnisbindingar, bæði innlenda aðila og erlenda.

Öll tölublöð Rits Mógilsár eru aðgengileg á vef Skógræktarinnar og á Rafhlöðunni, rafbókasafni Landsbókasafns Íslands.

Texti: Pétur Halldórsson