Nýja Þjórsárbrúin við Búrfell. Ljósmynd af vef Rangárþyngs ytra
Nýja Þjórsárbrúin við Búrfell. Ljósmynd af vef Rangárþyngs ytra

Um 100 metra löng göngu- og hjólabrú sem að verulegu leyti er smíðuð úr alíslensku timbri er nú tilbúin til notkunar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Brúin liggur yfir Þjórsá við Búrfell og verður einnig opnuð hestafólki þegar framkvæmdum sem nú standa yfir við Búrfellsvirkjun er lokið.

Frá þessu segir í frétt á vef Rangárþings ytra og þar kemur fram að framkvæmdum við smíði þessarar nýju göngu-, hjóla- og reiðbrúar yfir Þjórsá ofan Þjófafoss hafi miðað vel. Verkefnið er hluti mótvægisaðgerða vegna stækkunar Búrfellsstöðvar samkvæmt samkomulagi við sveitarfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Brúin er 102 metra löng stálbitabrú með timburgólfi úr íslensku sitkagreni sem Skógræktin aflaði í þjóðskógunum og Límtré Vírnet framleiddi alíslenskt límtré úr. Framkvæmdir við brúarsmíðina hófust um miðjan október og nú er sjálfri brúarsmíðinni lokið og hægt að heimila umferð gangandi og hjólandi yfir brúna.

Enn um sinn verður þó lokað fyrir umferð hestamanna um brúna, á meðan unnið er að aðgerðum innan virkjunarsvæðis Búrfellsstöðva. Þegar þeim er lokið verður hægt að opna leið fyrir hestamenn um Sámsstaðamúla. Vonir standa til að hægt verði að ljúka þessum umræddu framkvæmdum síðsumars og þá verði brúin tekin að fullu í notkun.

Nánar má fræðast um þessa framkvæmd í eldri fréttum hér á skogur.is, sjá tenglana hér að neðan.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson