Flutningabíll fermdur með greni sem aflað var í Haukadal og sagað í starfstöð Skógræktarinnar í Þjór…
Flutningabíll fermdur með greni sem aflað var í Haukadal og sagað í starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal. Límtré Vírnet á Flúðum notar efnið í límtrésbita í nýja brú yfir Þjórsá sem verður aðallega göngu- og reiðbrú en getur borið bíla í neyðartilvikum. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson.

Landsvirkjun er með í smíðum göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá rétt fyrir ofan Þjófafoss sem tengir saman sveitarfélögin Skeiða- og Gnúpverjahrepp annars vegar og hins vegar Rangárþing ytra. Límtré úr íslensku greni er notað í burðarvirki og gólf brúarinnar og hún er því fyrsta meiri háttar mannvirkið sem gert verður úr alíslensku límtré. Þegar smíðinni lýkur verður þessum sveitarfélögum afhent brúin til eignar.

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að Landsvirkjun hafi staðið vel að öllu skipulagi og hönnun brúarinnar og lagt mikið upp úr því að notast yrði við umhverfisvænt byggingarefni. Fyrirtækið leitaði til Skógræktarinnar og Límtrés Vírnets til að útvega íslenskt efni til smíðinnar. Brúin er alls 102 metra löng timburbrú með steyptum stöplum og burðarbitum úr stáli. Þar fyrir ofan koma límtrésbitar og loks tvöfalt lag af timburklæðningu í brúargólfið. Allt timburvirkið er úr íslensku sitkagreni úr Haukadalsskógi. Brúin verður göngubrú sem þó verður fær bílum í neyð. Er það hugsað sem öryggisatriði ef hamfarir verða, slys eða önnur neyðartilvik, svo að neyðarbílar komist þarna yfir.

Farmurinn kominn á bílinn. Ljósmynd: Jóhannes H. SigurðssonForsaga málsins er sú, að sögn Trausta, að árið 2019 leitaði fyrirtækið Límtré Vírnet til Skógræktarinnar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um að kannaðir yrðu möguleikar á framleiðslu límtrés úr íslensku timbri. Sú vinna bar góðan árangur og reyndist íslenska timbrið vel í burðarþolsprófum. Límtré Vírnet hefur lagt mikið upp úr að allt ferlið við framleiðslu á límtré úr íslensku efni standist þær gæðakröfur sem annars eru gerðar við slíka framleiðslu og allar gæðaprófanir á timbrinu hafa komið mjög vel út. Var því einboðið að límtrésbitarnir í nýju Þjórsárbrúna yrðu unnir úr íslensku sitkagreni í verksmiðju Límtrés Vírnets á Flúðum.

Skógræktin hefur nú þegar aflað alls þess timburs í Haukadalsskógi sem þarf til brúarsmíðinnar. Timbrið var sagað í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal undir góðri leiðsögn Eiríks Þorsteinssonar, viðarfræðings hjá fyrirtækinu Trétækniráðgjöf slf. Trausti bendir á að Eiríkur sé hokinn af reynslu þegar kemur að sögun og vinnslu á timbri og því hafi aðkoma hans verið mikilvæg svo að allt yrði rétt gert í ferlinu. Eiríkur sá m.a. um sjónflokkun á efninu sem fer í brúna. Fyrstu fjalirnar voru svo fluttar úr Þjórsárdal 21. október til þurrkunar og frekari vinnslu hjá Límtré Vírneti á Flúðum. Þegar efnið hafði náð réttu rakastigi var hafist handa við að hefla, fingurlíma saman fjalirnar og því næst líma í límtrésbita eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Brúarsmíðin er komin af stað og vinna við uppsteypu stöpla langt komin þegar þetta er skrifað. Trausti segir að mikilvægt hafi verið að ná að ljúka þeim hluta verksins áður en veturkonungur tæki öll völd. Í vor verði svo haldið áfram með verkið og stefnt að því að brúin verði tilbúin á næsta ári.

Allt samstarf var einstaklega gott í hópnum sem að verkinu hefur unnið, segir Trausti. Auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir voru fulltrúar frá Eflu verkfræðistofu einnig hluti af hópnum og sáu um hönnum burðarvirkisins.

Trausti segir óhætt að fullyrða að með þessu sé stigið stórt skref fyrir skógrækt á Íslandi. Ánægjulegt sé að sjá íslenskt timbur notað í svona stórt verkefni, timbur sem stenst vel þær kröfur sem til þess eru gerðar. Hlutfall íslensks timburs í mannvirkjagerð á Íslandi eigi eftir að aukast jafnt og þétt á komandi árum. Mikilvægt sé því að hugsa vel um skógana okkar svo hægt verði að framleiða meira gæðatimbur sem hentar til smíði húsa eða annarra mannvirkja og að sama skapi að halda áfram þróun og vinnslu á íslensku timbri.

Á meðfylgjandi myndum má sjá viðarfarm sem sendur var úr Þjórsárdal á dögunum til límtrésvinnslu á Flúðum. En þaðan hefur fleira verið sent að undanförnu, meðal annars jólatré, sem búið er haganlega um til flutnings svo trén skili sér sem fallegust til kaupenda. Myndir af þeim eru hér að neðan en allar þessar myndir tók Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi. Neðst er svo myndaröð sem sýnir ferlið í límtrésvinnslunni hjá Límtré Vírneti.

Heimild: Trausti Jóhannsson
Textavinnsla: Pétur Halldórsson

Jólatré tilbúin til flutnings. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson

 Vel fer um jólatrén í bílnum með þessu flutningslagi. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson