Krosslímdar timbureiningar draga stórlega úr umhverfisáhrifum húsbygginga, eru eldtraustar og gera k…
Krosslímdar timbureiningar draga stórlega úr umhverfisáhrifum húsbygginga, eru eldtraustar og gera kleift að reisa sterkar, endingargóðar og nútímalegar byggingar. Mynd úr HA, Íslenskri hönnun og arkitektúr, 09-2019: Rafael Pinho

Áhugaverð grein um krosslímdar timbureiningar birtist nýlega í íslenska hönnunartímaritinu HA, Íslenskri hönnun og arkitektúr. Þar er sagt frá vaxandi notkun í heiminum á slíku byggingarefni og tíundaðir kostir þess, ekki síst frá umhverfissjónarhorni.

Greinina skrifar Rafael Pinho arkitekt og meðal þess sem kemur fram er að notkun á timbri úr ungum skógum sé möguleg með því að skipta úr steinsteypu yfir í áðurnefndar krosslímdar timbureiningar, svokallaðar KLT-einingar. Það er í takti við þær tilraunir sem fara nú fram hjá Límtré Vírneti á Flúðum í samvinnu við Skógræktina og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

 

Efni í krosslímdar einingar má fá úr tiltölulega grönnum trjábolum úr ungum skógi hraðvaxinna tegunda. Mynd: Rafael Pinho

Í greininni nefnir Rafael langa sögu steinsteypunotkunar í heiminum, allt frá dögum Rómverja en einnig þau miklu umhverfisáhrif sem fylgja steypunotkun. Nú sé þörf á umhverfisvænni byggingarefnum. Timbur sé elsta byggingarefni í heimi og líka það sjálfbærasta. Rakin er saga og kostir krosslímdra timbureininga. Þær stytti byggingatíma og dragi úr ýmsum kostnaði við húsbyggingar og segir frá íslenskum verkefnum þar sem þessi hagkvæmi kostur er nýttur til nýsköpunar í hönnun og byggingariðnaði. Greinina má lesa í 9. tölublaði HA sem fæst í öllum helstu bóka- og hönnunarverslunum landsins.

Texti: Pétur Halldórsson