Logi Unnarson Jónsson ráðgjafi hjá Límtré-Vírneti og Edda Sif Pálsdóttir sjónvarpskona virða fyrir s…
Logi Unnarson Jónsson ráðgjafi hjá Límtré-Vírneti og Edda Sif Pálsdóttir sjónvarpskona virða fyrir sér stafla af fjórum íslenskum viðartegundum sem reyndar verða í límtrésvinnslu á Flúðum. Skjámynd úr umfjöllun Landands

Fjallað var í sjónvarpsþættinum Landanum 3. mars um tilraunir þær sem nú fara fram á Flúðum í Hrunamannahreppi til framleiðslu á límtré úr fjórum íslenskum trjátegundum. Þetta er samstarfs verkefni Skógræktarinnar, Límtrés-Vírnets og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Eins og sagt hefur verið frá hér á skogur.is stendur nú yfir spennandi rannsókn sem gengur út á að komast að því hvort hægt sé að nota íslenskt timbur í límtré en hingað til hefur verið notað innflutt hráefni. Skógræktin hefur útvegað timbur af greni, alaskaösp, stafafuru og rússalerki til þessa verkefnis.

Eins og í orðinu felst er límtré samlímt timbur og það er meðal annars notað í burðarbita og stoðir í húsbyggingum. Í Landanum var m.a. rætt við Trausta Jóhannsson, skógarvörð á Suðurlandi, sem er mjög bjartsýnn á að verkefnið gangi vel. „Þetta er mjög svo spennandi. Það er frábært að nú hafi verið lagt af stað í þessa vegferð. Loksins segja margir, að vinna alvöru timbur úr trjánum. Þetta sé ekki bara fellt niður, kurlað og brennt. Að við séum núna farin að hugsa verulega til framtíðar,“ segir Trausti. 

„Rauði þráðurinn í þessu verkefni er umhverfismál,“ segir Logi Unnarson Jónsson, ráðgjafi hjá Límtré-Vírneti. „Við gerum okkur alveg grein fyrir mikilvægi þessa verkefnis. Núna á t.d. að fara að stórauka skógrækt í landinu. Það gefur augaleið að það er mikill hagur í því að geta notað íslenskt timbur. Að sleppa við þungaflutninga frá Evrópu og bara byggja upp hér blómlegan timburiðnað.“

Gerðar verða styrktarprófanir á íslenska límtrénu hjá Nýsköpunarmiðstöð og búist er við fyrstu niðurstöðum með vorinu. Spennandi verður að fylgjast með framvindunni og greinilegt er á umfjöllun Landans að forvígismenn verkefnisins eru mjög spenntir.

Horfa

Texti: Pétur Halldórsson